Sterkur breskur þingmeirihluti en pólitíska sýnin óklár

17.12.2019 - 19:00
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Kosningabaráttunni er lokið, nú kemur að því að efna slagorðin. Boris Johnson forsætisráðherra Breta vill róttækar aðgerðir en allt óljóst um nákvæmlega hvað hann ætlar að gera. Kannski táknrænt að pundið styrktist þegar styrkur meirihluti Íhaldsflokksins lá fyrir en hefur svo veikst aftur að sama skapi, því Brexit-vegferðin gæti enn endað í samningslausri útgöngu. Óvissan um sýn og stefnu forsætisráðherra, bæði um Brexit og annað, svífur yfir vötnunum.

Thatcher, leiðtoginn sem vísaði veginn

Styttan af Margaret Thatcher í þinghúsinu breska sýnir hana með útrétta hönd, leiðtoginn að vísa veginn. Þessi fyrrum leiðtogi Íhaldsflokksins og síðan forsætisráðherra 1979 til 1990 var þekkt fyrir sterka pólitíska sýn, sprottna af gildum úr föðurgarði, lítilli búð í litlum bæ. Þetta rifjaði hún upp 1979 þegar hún renndi fyrst í hlað Downing strætis sem forsætisráðherra áður en hún stökk að heilsa áhorfendum.

Thatcher-áhrifin marka enn bresk stjórnmál

Valdatími Thatchers einkenndist af einkavæðingu og glímu við verkalýðsfélögin. Þegar hún hvarf nauðug á brott, felld af eigin þingflokki, hafði margt breyst. Afleiðingar Thatcher-stefnunnar marka enn breskt þjóðfélag og stjórnmál.

Thatcher er sígild viðmiðun í breskum stjórnmálum. Ákveðin kaldhæðni að Tony Blair og Gordon Brown, tveir leiðtogar Verkamannaflokksins á stjórnartímum flokksins 1997 til 2010 voru oft álitnir arftakar Thatchers. Efnahagsstefna þeirra var íhaldssöm og leiðarljós þeirra líka sterk pólitísk sýn.

Johnson, í stjórnarandstöðu við fyrri stjórn flokks síns

Andstætt bæði Thatcher og Tony Blair, sem færðu flokkum sínum völdin, þá tók Boris Johnson við eftir tæplega áratugs-stjórn Íhaldsflokksins sem Johnson sat sjálfur í um hríð. Þennan áratug rifjar Johnson ógjarnan upp. Hann vill breyta Bretlandi. En hvert sýn hans vísar eða hvort hann hefur yfirleitt nokkra heildstæða sýn eru áleitnar spurningar í pólitísku umræðunni í Bretlandi þessa dagana.

Upphaf án róttækra tilþrifa

Með að mestu óbreytta stjórn byrjar Johnson alla vega kjörtímabilið án róttækra tilþrifa. Reyndar giskað á uppstokkun stjórnarinnar eftir janúarlok, þegar Bretar verði gengnir úr ESB. Líka orðrómur um róttæka uppstokkun ráðuneyta og starfshátta þar.

,,You ain‘t seen nothing yet“

Fyrstu orðin í morgun á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar eftir kosningar gáfu ekki mikið annað til kynna en að forsætisráðherra vildi vinna hörðum höndum til að láta vonir kjósenda rætast. Ef einhver héldi að stjórn hans hefði verið önnum kafin undanfarna mánuði þá væri meira í vændum en nokkurn óraði fyrir. Kjósendur hefðu miklar væntingar sem þyrfti að uppfylla. – Ávarp í þessum svolítið hikstandi tóni, líkt og Johnson hugsi upphátt en í raun rækilega tillærður stíll.

Brexit-kosningar og pólitísk umskipti í víðum skilningi

Þetta voru Brexit-kosningar og sigur stjórnarinnar einkum því að þakka að fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins í Norður-Englandi kusu nú Íhaldsflokkinn til að hespa Brexit af, eins og forsætisráðherra hefur marg lofað. Úrslitin eru í raun pólitísk umskipti: Verkamannaflokkurinn, sem áður átti enska norðrið og verkafólk, er nú orðinn flokkur ,,latte-liðsins,“ betur stæðra og betur menntaðra borgarbúa.

Fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins kusu nú Íhaldsflokkinn sem er þá að hluta flokkur láglaunafólks og lítt menntaðra kjósenda í smærri byggðarlögum en ekki bara flokkur atvinnurekenda. Ríkisstjórnin þarf nú að sannfæra þessa nýju kjósendur sína um að hún lumi á fleiru en Brexit.

Brexit-kosningar en samt engar skýrar línur

Fyrstu Brexit-tilþrif nýrrar stjórnar eru lög um að í lok næsta árs verði Bretar að hafa lokið viðskiptasamningum við Evrópusambandið. Tímamörk sem ESB og Bretar hafa samið um en sem gætu dregist eins og útgangan áður. Einkum táknræn ákvörðun því ekkert sem hindrar að ríkisstjórnin breyti lögunum.

Eins og þetta virtist nú einfalt... 2016

Þetta virtist annars allt svo einfalt þegar Theresa May tók við sem forsætisráðherra í júlí 2016: Brexit þýddi Brexit og árangurinn yrði æðislegur. Saddur af þriggja ára Brexit-þófi May lofaði Johnson hikstalausri útgöngu. En í hvunndeginum að baki kosningum hefur pundið fallið og ávinningur þess eftir kosningarnar þurrkast út. Óvissan aftur uppi um hver sé eiginlega Brexit-stefna forsætisráðherra, hvort hann kannski hugleiði sem fyrr samningslausa útgöngu.

Kjósendur vilja meira en bara Brexit

Og Johnson blæs á allar ábendingar um að seinni hluti viðræðnanna, um framtíðarfyrirkomulagið, verði mun erfiðari og tímafrekari en þessi fyrsti hluti sem hefur tekið vel á fjórða ár. Kannski skýrist þetta með stefnuræðunni á fimmtudaginn en vandinn er enn sá að þrátt fyrir kokhraustar yfirlýsingar er enn ekkert fast í hendi, hvorki um Brexit né annað. Og já, kjósendurnir í norðri vilja meira en bara Brexit.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi