„Sterku drykkirnir eru ekki jafn vinsælir“

Mynd: Rúv / Rúv
Orkudrykkir renna í stríðum straumum ofan í ungt fólk og fyrir marga koma þeir í stað kaffis. Margar milljónir dósa seljast hér á landi árlega og hugsanlegt að höfðatölumet hafi verið slegin. Spegillinn fór í Bónus í Skeifunni og kíkti þar í orkudrykkjakælinn með Magnúsi Gunnarssyni, verslunarstjóra. Hann segir algera sprengingu hafa orðið í orkudrykkjaneyslu á síðastliðnum tveimur árum og viðurkennir að sjálfur drekki hann sennilega aðeins of mikið af þeim. Hlusta má á viðtalið í spilaranum.

Landlæknisembættinu ekki sama

Landlæknisembættið telur stóraukna orkudrykkjaneyslu eina af stærstu áskorununum tengdum lifnaðarháttum Íslendinga. Könnun Rannsóknar og greiningar rennir stoðum undir að einhvers konar orkudrykkjaæði hafi gripið um sig í framhaldsskólum landsins, í fyrra sagðist rúmlega helmingur framhaldsskólanema drekka orkudrykki daglega, árið 2016 átti það við um fimmtung þeirra. Sterkustu drykkina er bannað að selja börnum yngri en átján ára. 

Fjölbreytt úrval í kælinum

Magnús áætlar að í kælinum séu um 15 tegundir orkudrykkja. „Redbull, Euroshopper, Monster, Nocco og við bjóðum upp á fleiri,“ segir hann.

Við nánari skoðun kemur í ljós að Euroshopper-drykkurinn inniheldur 32 milligramm af koffíni í hverjum hundrað millilítrum. „Svo ef við tökum Nocco Miami, sem eru með 180 milligramma koffínmagni, þá eru hér varúðarorð framan á: Mjög hátt koffíninnihald ekki selt börnum undir átján ára aldri. Hér er þetta greinilega merkt.“

Við kælinn í Bónus er líka skilti með ráðleggingum til viðskiptavini, þar segir að orkudrykkir séu ekki ætlaðir börnum yngri en fimmtán ára, þeir innihaldi mikið af koffíni og séu ekki æskilegir fyrir börn, barnshafandi konur og konur með börn á brjósti. Þá sé mikilvægt að drekka þá í hófi. En fer fólk eftir þessu? „Ég veit ekki hvort kúnninn fylgir þessu en okkar starfsfólk fylgist töluvert með þessu, annars vegar að það séu ekki börn að kaupa orkudrykki og svo ef það eru orkudrykkir með aukið koffínmagn, að það sé stoppað og athugað hvort fólk sé örugglega orðið átján ára. Það eru reglur um að þau þurfi að vera orðin átján ára til að kaupa sterkustu drykkina.“ 

Kerfið minnir starfsmenn á að biðja um skilríki

Hvernig tryggir starfsfólk að ungmenni kaupi ekki drykki sem ekki eru ætlaðir þeim? Þekkja starfsmenn sem vinna á kassa dósir með þessu mikla magni og hvernig er þetta á sjálfsafgreiðslukössunum? „Með orkudrykki sem innihalda 180 milligrömm af koffíni er búið að implimentera í strikamerkið á þeim ákveið stopp sem á sér stað, annars vegar á beltakössunum, þar þarf sérstaklega að samþykkja að kúnninn sé orðinn átján ára til að halda áfram með afgreiðsluna. Á sjálfsafgreiðslunni kemur upp eins konar rautt flagg og kúnninn getur ekki klárað afgreiðsluna fyrr en starfsmaður hefur komið og staðfest að viðkomandi sé orðinn átján ára.“

Seljast alveg en minna en hinir

Magnús segir ekki mikið um að börn og ungmenni sem ekki eru komin með aldur reyni að kaupa drykkina. „Ég held þau yngstu sem kaupa hér orkudrykki séu um fimmtán ára, það eru þá þessir vægari, sterku drykkirnir eru ekki jafn vinsælir, þetta selst auðvitað en ég held að fólk sé alveg meðvitað um að þetta sé kannski full mikið í líkamann.“   

Orðnir plássfrekari í kælinum

Magnús segir að orkudrykkirnir séu farnir að taka meira pláss í kælinum. „Ég myndi segja að síðastliðin tvö ár hafi orðið alger sprengja í orkudrykkjum og framboði á þeim. “ Hann segist ekki geta skýrt auknar vinsældir drykkjanna en segist drekka þá sjálfur og sömuleiðis fólk í kringum hann. „Ég myndi segja að eftir að Nocco varð svona stórt þá varð eiginlega alger sprenging í þessu, ég held að Íslendingar eigi eitthvert höfðatölumet í orkudrykkjaneyslu.“ 

Ekki meira en fjóra bolla á dag

 Matvælastofnun mælir með því að fólk sem er eldra en átján ára og ekki ólétt neyti ekki meira en 400 mg af koffíni á dag, það samsvarar fjórum 200 millilítra kaffibollum. Börn eiga helst ekki að neita koffíndrykkja að mati stofnunarinnar, hámarksviðmið stofnunarinnar fyrir sjö ára barn sem vegur 24 kíló eru 60 mg, eða sem samsvarar hálfum lítra af kóki. Óléttar konur ættu að  takmarka neysluna við 200 mg. Á vef Matvælastofnunar segir að rannsóknir hafi sýnt neikvæða fylgni milli fæðingarþyngdar og mikillar koffínneyslu móður á meðgöngu, þá virðist koffínneysla auka líkur á fósturláti. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi