Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sterk króna skilar sér ekki í vasa neytenda

02.05.2017 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: 10-11 - 10-11.is
Verð á fatnaði og byggingarvöru hefur ekki lækkað í samræmi við styrkingu krónunnar og tollalækkanir, og verð á innfluttri matvöru hefur ekki lækkað til jafns við gengisþróun.

Gengisvísitalan hefur lækkað um 25% á síðastliðnum tveimur árum en verð á fatnaði hefur lækkað um rúm 6 prósent, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Á tímabilinu varð jafnframt breyting á tollum sem hefði átt að skila 7-8 prósenta lækkun í vöruflokknum ein og sér, samkvæmt útreikningum ASÍ. Tollar á byggingarvöru lækkuðu einnig en þrátt fyrir það, og gengisstyrkinguna, hefur verð á byggingarvöru hækkað um eitt prósent á síðustu tveimur árum. Lægra innkaupsverð frá útlöndum hefur því ekki að sama skapi skilað sér í lækkun til neytenda.
 
Þá hefur verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum lækkað um tæp 7 prósent á sama tímabili. Styrking krónunnar hefur einna helst skilað sér í verðlækkun á raftækjum.

Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, segir að föt og efni til viðhalds hafi ekki lækkað eins mikið og tilefni sé til. „Það virðist sem gengisáhrifin séu ekki sjáanleg í verðlagningu á fatnaði og skóm og að hvorki megi sá áhrif tolla né gengis í verðlagningu á efni til viðhalds,“ segir Henný. Hún treystir sér ekki til að meta hvort styrking krónunnar hefði átt að hafa áhrif til frekari lækkunar í öðrum vöruflokkum, svo sem innfluttri matvöru. „Við höfum takmarkaða möguleika á að meta bein áhrif gengis á verðlagningu því inn í hana spilar einnig launakostnaður, húsnæðiskostnaður og fleiri þættir,“ bendir hún á.

Fleira en gengið sem ræður verðlagningu

Margrét Sanders, stjórnarformaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir að margir þættir spili inn í verðlagningu, auk gengisþróunar. „Samkvæmt okkar greiningum hafa tollalækkanir skilað sér í bróðurpartinum af fötum og skóm. Það verður hins vegar að taka inn í myndina að á þessu tímabili hafa laun hækkað um 15%,“ segir Margrét.

„Það er bullandi samkeppni í vörum eins og fatnaði og skóm því íslenskir verslunareigendur eru í síauknum mæli að keppa við erlendar verslanir því vefverslun hefur aukist svo mikið,“ bendir hún á. Það sé því mikilvægt að verð sé samkeppnishæft hér á landi. „Verðlagning á matvöru er flóknari því þar spilar inn í verð á hrávöru sem var mjög lágt í byrjun árs 2016 en hefur hækkað mikið,“ segir Margrét.

„Við fögnum hins vegar aðhaldi og rökstuddri umræðu um verð á Íslandi,“ segir hún.
 

Hætta á að útflutningsfyrirtæki heltist úr lestinni

Gylfi Magnússon, doktor í hagfræði og dósent við Háskóla Íslands, segir að styrking krónunnar hafi bætt hag heimilanna að því leiti að hún vinni gegn verðbólgu og hækkun vaxta og verðtryggingar og dragi úr verðlagshækkunum. Styrking krónunnar auki því kaupmátt launa sem hefur ekki verið meiri frá upphafi mælinga.

Styrking krónunnar bitni fyrst og fremst á útflutningsgreinum á borð við sjávarútveg og ferðamannaiðnaðinn sem séu með tekjur í erlendri mynt en kostnað í íslenskum krónum. Styrking krónunnar snúi hins vegar öfugt við heimilunum sem séu með tekjur í íslenskri mynt, kaupi innfluttar vörur og ferðist til útlanda. 

„Ég treysti mér ekki til þess að spá fyrir um gengisþróun en það er ekkert sérstakt útlit fyrir að gengið fari að veikjast,“ segir Gylfi. „Þessi þróun hlýtur að þýða að einhver útflutningsfyrirtæki heltist úr lestinni og innflutningur aukist sem leiðir til ákveðins jafnvægis,“ segir hann.