Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sterk bílamenning þrátt fyrir gjaldfrjálsa strætisvagna

27.11.2019 - 19:31
Mynd: Úlla Árdal / RÚV
Þrátt fyrir gjaldfrjálsa strætisvagna og stuttar vegalengdir ríkir mikil bílamenning á Akureyri. Þar eru nú 700 fólksbílar á hverja þúsund íbúa. Bæjarbúar segja notkun einkabílsins hafa lagst í vana.

700 bílar á hverja þúsund íbúa

Á Akureyri búa rétt rúmlega nítján þúsund manns. Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu eiga Akureyringar rúmlega 13.300 fólksbíla. Það eru 700 bílar á hverja þúsund íbúa. Í gögnum Samgöngustofu er fjöldi bíla skráður eftir póstnúmerum. Til samanburðar má sjá að í hundrað og einum Reykjavík eru 613 fólksbílar á hverja þúsund íbúa.  

Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, birti nýverið tölur fyrir árið 2017 um fjölda bíla. Þar má sjá að Lúxemborg trónir á toppnum með 670 bíla á hverja þúsund íbúa. Ítalía kemur svo þar á eftir með 625 fólksbíla.

Notkun á strætó dregist saman

Almenningssamgöngur eru sannarlega valkostur fyrir bæjarbúa. Á Akureyri er ekið á sex strætóleiðum alla virka daga og á helstu leiðum um helgar. Notkunin hefur samkvæmt upplýsingum frá bænum dregist saman síðustu ár en til stendur að uppfæra leiðarkerfið.

Erfitt kortleggja ástæður

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs segir erfitt að segja til um ástæður þess að Akureyringar séu svo gefnir fyrir einkabílinn. 

„Það er erfitt að segja af hverju hún er svona sterk hérna, það verður að segjast. Af því að bærinn býður eiginlega upp á að geta verið með mun minni bílnotkun allavegana.“

Er raunhæft fyrir Akureyringa að bara hreinlega lifa bíllausum lífstíl? 

„Maður þorir ekki að vera svona djarfur þannig að ég svona hef reynt að kynna hugtakið bílminni lífstíll sem er mjög mikilvægt. Að þú fækkir bílakílómetrum.“