Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Steina, hvaða orgía var þetta?“

Mynd: Vasulka-áhrifin / Vasulka-áhrifin

„Steina, hvaða orgía var þetta?“

11.03.2020 - 13:40

Höfundar

Hjónin Steina og Woody Vasulka voru í hringiðu framúrstefnulistar og grasrótarmenningar New York-borgar í kringum 1970, auk þess að vera frumkvöðlar í vídjólist. Vopnuð myndbandsvél skjalfestu þau svo eitthvað af því mikla gjálífi sem senunni fylgdi. Woody Vasulka lést fyrir síðustu jól en fjallað er um líf og feril hjónanna í heimildarmyndinni Vasulka áhrifin.

„Við vorum með fínt loft, og tónlistarmennirnir sem bjuggu uppi komu niður, reyktu sig skakka og það var svo gaman,“ segir Woody Vasulka meðan hann fer yfir gamlar myndbandsupptökur af heimili sínu og Steinu og kemur auga á djassgeggjarann Miles Davis. Steina segir að gestagangurinn hafi verið mjög mikill og upptökuvélin hafi oft verið á lofti. „Fólk kom með vini sína. Svo hringdi fólk og vildi sjá hvað við hefðum tekið upp. Þannig við áttum varla heimili lengur. Við gátum ekki farið að sofa því húsið var alltaf fullt af fólki.“

Þau segja að það hafa verið ótrúlega gaman að taka þátt í þessari senu þar sem gjálífi og nautnafans hafi verið daglegt brauð. „Það var svo mikið djammað og drukkið,“ segir Steina. „Við skemmtum okkur konunglega og það varð skemmtilegra ár frá ári. 1965 var hófsamasta árið, '66 fór ákafinn að aukast og '68 var þetta komið á fullt skrið.“ Í New York umgengust þau svo mikið af útlendingum, ekki síst Tékka, en tékkneskir listamenn flúðu heimaland sitt í hrönnum eftir að Rússar réðust inn í Tekkóslóvakíu 1968.

Vasulka-hjónin áttu ógrynni af myndum og myndböndum frá hálfrar aldar ferli sínum og mikið af nekt er að finnu í gömlum möppum og myndböndum. „Steina, hvaða orgía var þetta aftur?“ spyr Woody þegar hann fer yfir gamla harða diska. „Við megum ekki sýna þetta neinum!“ svarar Steina. „Nei, ég veit, ég man bara ekki. Er þetta frá Kanada?“ og Steina svarar játandi. „Tékkar eru afslappaðir þegar kemur að kynlífi og nekt. Það voru keppnir um hver væri með lengsta typpið og við dönsuðum saman nakin. Við vorum ekki meðvituð um það hvað Ameríka var enn púrítönsk. Auðvitað héldum við partí þar sem allir afklæddust.“

Vasulka-áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur var sýnd á RÚV á mánudagskvöld en hægt er að horfa myndina í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Gifstu mér og komdu með mér héðan“

Myndlist

Stórmerkileg saga Vasulka-hjónanna

Kvikmyndir

Vasulka-áhrif í endurnýjun lífdaga

Myndlist

„Steina hefur haft áhrif á okkur öll“