Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stefnir í sigur Bidens í 9 ríkjum af 14

epa08268370 Former US Vice President and Democratic presidential candidate Joe Biden speaks during his Super Tuesday event at the Baldwin Hills Recreational Center in Los Angeles, California, USA, 03 March 2020. Fourteen states are holding their primaries with more than one third of the total pledged delegates in the Democratic primaries to be awarded on Super Tuesday.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður og varaforseti Bandaríkjanna, stendur í dag mun betur að vígi í baráttunni um að verða forsetaefni Demókrata en hann gerði í gær. Gengi Bernie Sanders í kosningum gærdagsins var hins vegar undir væntingum. Það á líka við um Elizabeth Warren og Michael Bloomberg, sem eru nánast endanlega úr leik. Ofur-þriðjudagurinn skýrði vissulega línurnar í forvali Demókrata því ljóst er að stendur nú milli Sanders og Bidens.

Biden er með örugga forystu í átta af þeim fjórtán ríkjum sem kosið var í á þessum svokallaða ofur-þriðjudegi, og í Texas, því ríki sem gefur næst-flesta landsfundarfulltrúa, er hann líka efstur, þótt litlu muni á honum og Bernie Sanders.

Risinn úr öskunni

Biden hefur átt nokkuð undir högg að sækja í skoðanakönnunum vestra og reið ekki feitum hesti frá fyrstu forkosningunum, sem fram fóru í Iowa og New Hampshire, og heldur ekki í Nevada. Honum gekk hins vegar vel í Suður-Karólínu og niðurstöður ofur-þriðjudagsins sýna glöggt að það var engin tilviljun, því alstaðar þar sem blökkufólk er fjölmennt í röðum kjósenda hefur Biden gengið vonum - og spádómum framar.

Það hefur svo eflaust reynst honum dýrmætt að þau Pete Buttigieg og Amy Klobuchar, sem drógu sig út úr baráttunni um helgina, lýstu bæði yfir stuðningi við hann. „Þetta hefur verið gott kvöld og það virðist ætla að verða enn betra," sagði Biden þegar fyrstu sigrar kvöldins lágu fyrir og tölur fóru að tínast inn víðar að. „Það er ekki að ástæðulausu að þetta er kallað ofur-þriðjudagur." bætti hann við, kampakátur.

Biden sigrar að líkindum í 9 ríkjum af 14

Biden varð efstur í Oklahoma, Maine, Minnesota, Arkansas, Tennessee, Alabama, Norður-Karólínu og Massachusetts, heimaríki Elizabeth Warren. Þá er allt útlit fyrir að hann fari með sigur af hólmi í Texas. Þar er búið að telja 75 prósent atkvæða og hefur Biden fengið 32 prósent þeirra en Sanders 29.

Vonbrigði hjá Sanders, skipbrot hjá Warren og Bloomberg

Fyrirfram var búist við að Bernie Sanders yrði sigurvegari kvöldsins og spurningin snerist einkum og aðallega um það, hversu mikið forskot hans yrði eftir nóttina. Niðurstaðan er talsvert önnur. Hann er að vísu með örugga forystu í Kaliforníu, þar sem fleiri landsfundarfulltrúar eru til skiptanna en í nokkru ríki öðru. Þegar búið var að telja rúman þriðjung atkvæða þar, var hann með tæp 30 prósent, en Biden tæp 20 í öðru sætinu og Michael Bloomberg með 17,5 prósent í því þriðja.

Auk Kaliforníu sigraði Sanders í sinni heimabyggð, Vermont, og Utah og Colorado. Ofur-þriðjudagurinn reyndist hörmungar-þriðjudagur fyrir Elizabeth Warren. Hún endaði hvergi ofar en í þriðja sæti, ekki einu sinni í sínu höfuðvígi, Massachusetts, og tókst óvíða að komast yfir 15 prósenta þröskuldinn, sem í mörgum ríkjum skilur á milli feigs og ófeigs.

Loks vann Michael Bloomberg alla sex landsfundarfulltrúana sem sendir verða frá Bandarísku Samóaeyjum. Að öðru leyti gekk honum illa að sannfæra kjósendur, nema helst í Kaliforníu og Colorado.