Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stefndi sér í lífshættu fyrir sjálfu

30.03.2018 - 19:01
Mynd: Páll Jónsson / Páll Jónsson
„Hann var rosalega heppinn, hefði hann dottið þarna á milli hefði ekki þurft að ræða það meira. Þetta hefði verið búið,“ segir leiðsögumaðurinn Páll Jónsson sem náði myndunum hér fyrir ofan af bandarískum ferðamanni sem stefndi sjálfum sér í lífshættu með því að fara út á ísinn á Jökulsárlóni síðdegis.

„Hann var kominn mun lengra út og var með selfístöng og tók myndir af sér. Það var skelfilegt að sjá þetta og svo var ísinn á fleygiferð. Ef hann hefði farið þarna ofan í þá hefði hann getað kramist og örugglega ekki komist upp úr aftur. Það hefði verið vonlaust að fara út eftir honum,“ segir Páll sem segist hafa átt orð við ferðamanninn þegar hann kom aftur á land til kærustu sinnar sem beið á ströndinni. „Ég var ekkert að rífast við þau en stóðst ekki freistinguna að segja að þetta hefði ekki verið gáfulegt og að hann hefði verið heppinn.“ 

Skilti er við Jökulsárlón þar sem sést að bannað er að fara út á ísinn. Páll segir að ferðamaðurinn hafi í fyrstu haldið því fram að hann væri kanadískur og sérfræðingur í ísjökum. „Ég sagði honum að það gæti vel verið en hann væri líka mannlegur. Það væri sama hvaðan hann væri ef hann færi ofan í vatnið. Niðurstaðan yrði sú sama. Hann sagðist þá vera vanur þessu frá Bandaríkjunum, þaðan sem hann væri.“

Páll segir að fólk hafi fagnað honum þegar hann kom aftur á land. „Ég hef séð fólk stikla á jökum í fjörunni áður en ekkert svona glæfralegt. Ég hélt að ég væri að fara að verða vitni að dauða hans. Sem betur ferð þá varð það ekki.“

Páll segir að annar leiðsögumaður hafi haft samband við lögreglu en að ferðamaðurinn hafi farið fljótlega eftir það. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV