Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stefna Magnúsi og vilja fjárnám í húsi hans

19.03.2020 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arion banki hefur stefnt Magnúsi Ólafi Garðarssyni, stofnanda og fyrrverandi forstjóra United Silicon, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Bankinn krefst þess að fjárnám veðri gert í fasteign Magnúsar að Huldubraut 28 í Kópavogi samkvæmt 5 milljóna króna tryggingabréfi sem hvílir á fyrsta veðrétti eignarinnar.  

Ástæðan er uppsöfnuð skuld Tomahawk Developement við Arion banka vegna yfirdráttarheimildar á veltureikningi í eigu Arion. Síðasta yfirdráttarheimild sem Arion banki samþykkti féll niður þann 6. september 2017 án þess að til framlengingar kæmi og bar Tomahawk Development á Íslandi hf. því að greiða kröfuna á þeim degi. Skuldin var þó ekki greidd á gjalddaga og var reikningnum í kjölfarið lokað, nánar tiltekið þann 3. janúar 2018. Nam þá höfuðstóll uppsafnaðrar skuldar veltureikningsins fimm milljónum króna. 

Magnús var í ábyrgð fyrir skuld Tomahawk Development við bankann, en hann var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og með prókúruumboð fyrir félagið, ásamt því að vera eigandi 73,5% hlutafjár,

Í stefnunni kemur fram að þann 6. febrúar 2019 var bú Tomahawk Development á Íslandi tekið til gjaldþrotaskipta og er því ekki stefnt til greiðslu skuldarinnar, að svo stöddu. Það sé fyrirséð að ekkert fáist greitt upp í almennar kröfur úr þrotabúinu.

Í þjóðskrá er Magnús skráður til heimilis í ótilgreint hús á Spáni. Stefnan er því birt í Lögbirtingablaðinu og er þar skorað á Magnús að greiða stefnukröfurnar nú þegar til umboðsmanns stefnanda eða koma ella fyrir dóm þegar málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. maí næstkomandi. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV