Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefna að friðlýsingu Stapavíkur og Stórurðar

27.09.2019 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: borgarfjordureystri.is
Umhverfisstofnun og landeigendur á Úthéraði í Hjaltastaðaþinghá vinna að friðlýsingu með Umhverfisstofnun. Borgafjarðarhreppur hefur óskað eftir nánari útlistun á hvaða áhrif friðlýsingin hefði á búsetu og starfsemi á svæðinu.

Með friðlýsingunni vill Umhverfisstofnun varðveita fjölbreytt landslag fjalla, víkna, berghlaupa og grjótjökla. Fuglalíf sé fjölbreytt ásamt sögulegum minjum, í Stapavík og Krosshöfða var áður höfn Héraðsbúa og gamall verslunarstaður. Jarðirnar eru í eigu ríkissjóðs og félag landeiganda í Hjaltastaðaþinghá.

Tillaga að mörkum friðlýst svæðis miðast við jarðamörk Heyskála, Hrafnabjarga og Unaós. 

Með friðlýsingunni er Umhverfisstofnun heimilt að kveða nánar á um takmarkanir, til að mynda að afla skuli leyfis til athafna og framkvæmda sem geti haft áhrif á verndargildi svæðisins. 

Barst átta athugasemdir

Umhverfisstofnun bárust átta athugasemdir við friðlýsinguna. Einn lagðist alfarið gegn henni. Hafrannsóknastofnun sagði að innan svæðisins væru ár þar sem er veiðinýting sem löng hefð er fyrir og nauðsynlegt að gera ráð fyrir veiðinytjum. Félag hreindýraleiðsögumanna vildi leggja áherslu á að ekki yrðu settar frekari takmarkanir á veiðar. Eigandi fjallahjólafyrirtækis segir að varlega þurfi að fara í boð og bönn, þar sem hann stefni á fjallahjólamennsku á svæðinu.

Landeigendur hafi síðasta orðið

Borgarfjarðarhreppur óskaði eftir nánari útlistun á hvaða áhrif friðlýsingin hefði á búsetu og núverandi starfsemi á svæðinu. „Við getum ekki farið í friðlýsingar sem hreppsnefnd nema hafa landeigendur með. Mest allt land í Borgarfirði er í einkaeigu og þeir hafa alltaf síðast orðið,“ segir Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps. „Ég held að þetta sé betur komið hjá heimamönnum - heldur en einhverri stofnun,“ segir Jakob jafnframt.

Jóhanna Sigmarsdóttir á land innan friðlýsingartillögunnar. Hún segir að samstaða sé um friðlýsinguna meðal landeigenda. Jakob sagði í sjónvarpsfréttum í gær að landeigendur í Borgarfirði hefðu haldið fund og komist að því að þeir vildu ekki friðlýsingu innan síns hrepps. 

Umhverfisstofnun fer nú yfir athugasemdirnar og auglýsir tillögu að friðlýsingu í þrjá mánuði. Hægt verður að skila frekari athugasemdum á þeim tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum Jóhönnu Sigmarsdóttur, landeiganda. Rétt er að taka fram að oddviti Borgarfjarðarhrepps er í viðtalinu að vísa í friðlýsingar innan síns hrepps en ekki á Héraði.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV