Stefna á að hífa fyrsta bátinn upp úr höfninni í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Íbúar á Flateyri og fleiri þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum kalla eftir aukinni heilbrigðisþjónustu á stöðunum eftir atburði síðustu daga. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða mun draga lærdóm af atburðunum. Stefnt er að því að hífa fyrsta bátinn upp úr höfninni í dag.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður, hefur fylgst með aðgerðum á Flateyri undanfarna daga eftir að tvö snjóflóð féllu þar með skömmu millibili. Nánast allur floti Flateyrar sökk eða sex bátar af sjö.

Sigríður sagði í hádegisfréttum RÚV að reyna ætti að nýta veðurblíðuna núna til að hífa báta upp úr höfninni en það væri ekki vitað hversu langan tíma þetta tæki. Blíðskaparveður væri á Flateyri núna en spáin fyrir næstu daga væri ekki góð.

Í hádegisfréttum var einnig rætt við Gylfa Ólafsson, framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Gylfi sagði að Flateyingar kölluðu eftir aukinni heilsugæsluþjónustu og grunnbúnaði til að takast á við áföll eins og þetta.  „Það er kallað eftir meiri þjónustu á staðnum og það er magt sem við getum lært af þessu og hvernig starfsemi okkar er háttað.“

Gylfi segir að sá lærdómur sem hægt verði að draga af þessu sé að standa verði vörð um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt sé í héruðum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi