Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Starfsmenn geta hlustað á upptökur notenda

13.07.2019 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Fyrirtækið Google hefur staðfest að starfsmenn þeirra geti nálgast upptökur úr gervigreindarbúnaðinum Google Assisstant. Fyrirtækið viðurkenndi þetta eftir að ríkisútvarpið í Belgíu, VRT, komst á snoðir um að hægt væri að hlusta á upptökur úr Assistant og nálgast þannig persónulegar upplýsingar um notendur.

Assistant er raddstýrður gervigreindarbúnaður. Hægt er að nota búnaðinn til að svara spurningum, spila tónlist og senda smáskilaboð svo eitthvað sé nefnt. Notendur virkja hugbúnaðinn með ákveðinni kveðju,til dæmis með því að segja eitthvað á borð við „OK, Google.“ Um leið og hugbúnaðurinn hefur verið virkjaður byrjar hann sjálfkrafa að hljóðrita.

Samkvæmt Google hlusta starfsmenn á upptökur í þeim tilgangi að skilja betur blæbrigði tungumála. Í notendaskilmálum Assistant kemur fram að upptökur gætu verið notaðar af fyrirtækinu. Það sé hægt að slökkva á aðgerðinni en það takmarkar í leiðinni einstaklingsmiðaða virkni gervigreindarbúnaðarins. 

Haft er eftir talsmanni Google á vef Wired að einungs 0,2 prósent hljóðritana séu notaðar í þessum tilgangi og ekki sé hægt að rekja uppruna þeirra. Hins vegar greinir VRT frá því að í upptökum sem miðillinn komst yfir komi fram ýmsar persónulegar upplýsingar, til að mynda heimilisföng, upplýsingar um ástarlíf fólks og brot úr símtölum. Í einni upptökunni heyrast hjón tala um barnabörnin sín sem eru nafngreind í samtalinu. Líklegt er að Google brjóti með þessu gegn nýrri persónuverndarlöggjöf sem tók gildi í ríkjum Evrópusambandsins í á síðasta ári. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem upp kemst að fyrirtæki hljóðriti samtöl notenda. Árið 2017 staðfesti Google að Home hátalarinn, sem fyrirtækið framleiðir, gæti tekið upp samtöl án þess að gervigreindarbúnaðurinn væri virkjaður. Á síðasta ári viðurkenndi fyrirtækið Amazon að starfsmenn fyrirtækisins skoði upptökur notenda úr gervigreindartækinu Alexu.  

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV