Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Starfsmannaleigan Menn í vinnu gjaldþrota

25.09.2019 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Starfsmannaleigan Menn í vinnu var úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan þennan mánuð. Skiptafundur verður þann 16. desember. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag. Skorað er á alla þá sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þeirra að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða.

Töluvert hefur verið fjallað um starfsmannaleiguna í fjölmiðlum að undanförnu. 

Kveikur var með ítarlega umfjöllun um fyrirtækið fyrir ári en þar kom í ljós að verkamönnum hafði verið boðið til vinnu á Íslandi á fölskum forsendum. Forsvarsmenn fyrirtækisins kærðu umfjöllunina til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem komst að þeirri niðurstöðu að umfjöllunin hefði ekki brotið gegn siðareglum 

Í apríl lagði Vinnumálastofnun 2,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið fyrir misræmi í skráningum starfsmanna fyrirtækisins hjá stofnuninni. Annar eigandi fyrirtækisins sagði í samtali við fréttastofu að sektin væri tilhæfulaus. 

Þá greindi Fréttablaðið frá því í síðustu viku að fyrirtækið hefði höfðað tvö meiðyrðamál gegn sérfræðingi í vinnustaðaeftirliti ASÍ og forstjóra Vinnumálastofnunar.  Málin voru höfðuð vegna ummæla sem látin voru falla eftir að fulltrúar ASÍ og lögreglunnar könnuðu aðstæður rúmenskra starfsmanna fyrirtækisins.