Starfsmaður HSA á Egilsstöðum smitaðist - 123 í sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Starfsmaður heilsugæslunnar á Egilsstöðum var sá fyrsti sem greindist með COVID-19 smit á Austurlandi. 123 manns eru í sóttkví þar, þar af 14 starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Rætt hefur verið um að loka fjórðungnum af í sóttvarnarskyni, en það er ekki talið þjóna tilgangi sínum.

„Það er rétt að fysta smitið kom upp á Austurlandi í gær. Og þá hófst hefðbundið ferli smitrakningar; að kanna ferðir þessa einstaklings, að ræða við einstaklinga sem hann hafði verið í samskiptum við og setja fólk í sóttkví eins og þörf er á. Og þessi smitrakning skilaði því að það eru 17 manns í sóttkví á Austurlandi vegna þessa tilfellis,“ sagði Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun.

Uppfært kl. 13:18: Samkvæmt nýjum tölum sem birtar voru á covid.is klukkan 13:00 eru nú 123 í sóttkví á Austurlandi, og tveir með staðfest smit.

Sá sem greindist fyrst með smit er starfsmaður Heilsugæslunnar á Egilsstöðum. Af þessum 123 sem eru í sóttkví á Austurlandi eru 14 starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Guðjón segir að það hafi vissulega áhrif á starfsemi stofnunarinnar.

„Jú eins og gefur að skilja, þá skiptir hver og einn starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar í dag verulega miklu máli. Að missa 14 í sóttkví hefur áhrif en hluti af þessum starfsmönnum hefur tækifæri til þess að vinna heima, og er að vinna heima, þannig að við reynum að nýta krafta þeirra sem eru í sóttkví eins vel og við getum.“

Góður tími til undirbúnings

Ekki er vitað hvar maðurinn smitaðist, hvort það gerðist á Austurlandi eða utan svæðisins, en það er til skoðunar. Þá er einnig verið að skoða hvort hann hafi smitað einhverja sjúklinga.

„Það eru bara þessar varúðarráðstafanir sem við höfum, og það á auðvitað bara eftir að koma í ljós. En þeir sem þurfa að fara í sóttkví eru í sóttkví og það er vel fylgst með þeim einstaklingum.“

Guðjón segir jákvætt hversu langan tíma það tók fyrir fyrsta smitið að greinast á Austurlandi.

„Já ég tel það. Auðvitað á það eftir að koma í ljós. En í síðustu viku, og það sem af er þessari viku, hefur endurskipulagning á allri okkar heilbrigðisstarfsemi farið fram með það að markmiði að koma í veg fyrir að smit breiðist út innan stofnunarinnar. Þannig að ég tel að okkur hafi alla vega gefist tími til þess að vinna þá skipulagsvinnu mjög vel.“

Þannig segir Guðjón að starfsmenn fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað séu til dæmis vel undir komu veirunnar búnir.

„Staðan þar er sú að starfsfólk umdæmissjúkrahússins á Austurlandi hefur unnið hörðum höndum að því að skipuleggja og endurskipuleggja sína starfsemi með það að markiði að vera í stakk búið til þess að takast á við möguleg smit á Austurlandi,“ segir Guðjón.

Mikil umræða hefur farið fram um það á Austurlandi, hvort loka ætti fjórðungnum í sóttvarnarskyni. Í tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér í gær segir að sá möguleiki hafi verið ræddur við forsvarsmenn Almannavarna, en niðurstaðan hafi orðið sú að slík lokun þjóni ekki tilgangi sínum, heldur myndi hún einungis fresta vandanum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi