Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Starfsmaður forsætisráðuneytisins með COVID-19

09.03.2020 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Starfsmaður forsætisráðuneytisins er einn þeirra 60 Íslendinga sem hefur greinst með COVID-19 kórónaveiruna. Þetta staðfestir Rósa Guðrún Erlingsdóttir, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins í samtali við fréttastofu.

Tekin voru sýni úr tveimur samstarfsmönnum mannsins. Það reyndist neikvætt hjá öðrum þeirra en beðið er eftir niðurstöðu hjá hinum.  

Rósa Guðrún segir að viðkomandi starfsmaður hafi ekki starfsaðstöðu í stjórnarráðshúsinu þar sem ríkisstjórnin kemur saman og hafi heldur ekki átt í neinum samskiptum við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Ríkisstjórnin hefur ekki fundað síðustu vikur í húsinu vegna framkvæmda við húsið.

Verklagsreglum í forsætisráðuneytinu var breytt eftir að viðbúnaðarstig var hækkað í neyðarstig vegna COVID-19. Þannig eru engin fundarhöld heldur notast við fjarfundabúnað og starfsmennirnir nota ekki mötuneytið á sama tíma. Rósa segir að allur þessi viðbúnaður miði að því að tryggja órofa starfsemi.

Fréttin hefur verið leiðrétt: Í upphaflegri frétt var sagt að tveir samstarfsmenn mannsins hefðu farið í heimasóttkví en það var ekki rétt. Tekin voru sýni úr þeim.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV