Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Starfsmaður Egilsstaðaskóla með staðfest smit

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Starfsmaður í Egilsstaðaskóla er smitaður af COVID-19 veirunni. Þetta kemur fram í tölvupósti sem skólastjóri Egilsstaðaskóla sendi foreldrum í dag. Þar kemur fram að viðkomandi hafi verið við störf á frístundaheimili skólans tvisvar í viku, og að hann hafi síðast verið við störf á fimmtudaginn í síðustu viku. Fjórir starfsmenn og tveir nemendur við skólann eru nú komnir í sóttkví vegna þessa.

Tveir eru nú með staðfest COVID-19 smit á Austurlandi, en hinn sem er með staðfest smit er starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samkvæmt upplýsingum á covid.is eru nú 123 í sóttkví á Austurlandi.

Í tölvupóstinum sem Sigríður Ruth Magnúsdóttir skólastjóri Egilsstaðaskóla sendi foreldrum í dag, segir að starfsmaðurinn hafi verið í skólanum eftir að hefðbundnum skóladegi var lokið, eða eftir klukkan 14. Hann hafi verið á afmörkuðu svæði, ekki í kennslustofu, og því hafi samgangur við aðra starfsmenn og nemendur verið enginn, umfram umgengni við aðra starfsmenn frístundaheimilisins. Í póstinum kemur fram að starfsmaðurinn sé ekki mikið veikur. 

„Öryggisnefnd skólans fundaði í dag og er fyrirkomulag skólahalds í endurskoðun,“ segir Sigríður Ruth í póstinum.