Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Starfsfólk álversins slegið og áhyggjufullt

12.02.2020 - 11:32
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Starfsfólk álversins í Straumsvík er slegið vegna mögulegrar lokunar álversins. Boðað var til starfsmannafundar í morgun þar sem stjórnendur fyrirtækisins upplýstu fólk um stöðuna.

„Þetta eru svo sláandi fréttir og fólk er að meta þetta. Það eru yfir 400 manns sem starfa hérna svo þetta er verulegur fjöldi fólks sem á allt sitt undir,“ segir Reinhold Richter, trúnaðarmaður starfsmanna.

Reinhold segir starfsfólk verulega áhyggjufullt. Ekki hafi verið mikið um spurningar á starfsmannafundinum, enda flestir slegnir yfir tíðindunum.

Flækir yfirstandandi kjaraviðræður

Starfsfólk álversins hjá stéttarfélögunum, VR, Hlíf, VM, Rafiðnaðarsamandinu og FIT, hafa síðustu mánuði unnið að því að semja um kjör sín hjá fyrirtækinu. Fréttir af yfirvofandi lokun álversins gætu flækt stöðuna verulega.

„Staðan er sú að það liggur fyrir samkomulag um kjarasamning sem bíður undirskriftar samninganefndar ÍSAL og stjórnarmanna SA. Þeir hafa ekki fengið leyfi til að skrifa undir frá stjórn Rio Tinto. Samningaviðræðunum er í raun og veru lokið, það vantar bara undirskriftina. Þeir hafa ekki fengið leyfi til að skrifa undir og svo koma þessar fréttir ofan í,“ segir Reinhold.  

Hann segir að verkalýðsfélögin séu byrjuð að tala saman til að ákveða með framhaldið.

„Fólk ætlar að sofa á þessu og ákveða síðan næstu skref.“