Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Starfsemi Icelandair mun aldrei leggjast af

Mynd: RÚV / RÚV
„Það mun aldrei verða þannig að öll þessi starfsemi mun leggjast af,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um stöðu Icelandair í Kastljósi í kvöld. Hann sagði algjörlega ótímabært að tjá sig um aðkomu ríkisins að fyrirtækinu. Það hefði sína stjórn og stjórnendur sem ynnu að því að koma félaginu í gegnum núverandi erfiðleika. Bjarni sagði Icelandair eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins nú um stundir. Hann sagði það frumskyldu stjórnvalda að tryggja samgöngur til landsins.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að stemningin í samfélaginu sé allt önnur en hún var í hruninu árið 2009. „ Við þurftum að leita á náðir nágrannaþjóða og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,“ sagði Bjarni í Kastljósi í kvöld. Þá hefði þurft að setja á gjaldeyrishöft, mikil og viðvarandi reiði hefði verið í samfélaginu, skuldavandi vafðist fyrir landsmönnum og langan tíma tók að fá niðurstöðu úr ýmsum dómsmálum til að skýra stöðuna.

Nú er þessu öfugt farið, sagði fjármálaráðherra. „Það er algjör samstaða í samfélaginu. Við erum öll að taka þátt í baráttu gegn útbreiðslu veirunnar,” sagði Bjarni. Ekki sé komin upp sú staða að heilbrigðiskerfið sé undir of miklu álagi en ekki megi láta deigan síga.

Stór skref stigin

Bjarni sagði að mjög stór skref hefðu verið stigin á skömmum tíma til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum COVID-19 heimsfaraldursins. Þar nefndi hann fyrst aðgerðir Seðlabanka Íslands til að auka peningamagnið í umferð. Ofan á þetta bætist yfirlýsing bankanna um hvaða úrræði standi fyrirtækjum til boða. Þá hefur ríkið frestað gjalddögum fyrirtækja, boðið upp á hlutastarfaleið svo ekki þurfi að segja fólki upp, lagt fram fjárfestingaráætlun og opnað fyrir brúarlán til fyrirtækja

„Við erum að reyna að ná til þeirra sem lenda í vanda vegna ástandsins,” sagði Bjarni um markmið stjórnvalda með aðgerðum sínum. „Þeir sem voru í eðlilegum rekstri þegar ástandið kom upp, við erum að reyna að ná til þeirra.“ Bjarni sagði að úrræðin væru ekki sérstaklega sniðin að þeim sem voru þegar í vanda áður en kom til efnahagslegra áhrifa af COVID-19 heimsfaraldrinum. „Við ætlum að gera það sem þarf til að snúa við stöðu þeirra sem eru að hrapa vegna ástandsins, það ætlum við að gera vegna þess að þetta er tímabundið ástand.“

Frumskylda að tryggja samgöngur

„Ég lít á það sem okkar frumskyldu að tryggja samgöngur við landið,“ sagði Bjarni en kvað það erfitt þegar stjórnvöld bæði austan hafs og vestan væru að loka landamærum sínum. Aðspurður hvort ríkið kæmi að eignarhaldi Icelandair svaraði Bjarni: „Það mun aldrei verða þannig að öll þessi starfsemi mun leggjast af,“ sagði Bjarni en kvað það eiga eftir að koma í ljós hvernig framtíð Icelandair yrði. Þar væru stjórnendur og stjórn að vinna að því að treysta stöðu fyrirtækisins.

Bjarni sagðist finna fyrir miklum áhuga hjá ferðaþjónustunni vegna þess fjármagns sem á að veita almenningi til að ferðast innanlands. Hann sagði ferðaþjónustuna skoða leiðir til að koma til móts við þetta, jafnvel með mótframlagi sem bættist ofan á það sem kæmi frá ríkinu.