Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stærsti landeigandi á Íslandi

21.02.2020 - 11:30
Mynd: Einar Falur / Aðsend mynd
Síðan 2016 er stærsti landeigandi á Íslandi Jim Ratcliffe, einn mesti auðkýfingur Breta. Hann á Grímsstaði á Fjöllum, stærstu jörð á Íslandi, en annars hefur hann einbeitt sér að laxveiðijörðum í norð-austurlandi. Þessi samþjöppun eignarhalds hefur leitt til umræðna um hvort breyta ætti lögum um jarðakaup. Nú er komið fram frumvarp um breytingar á jarðalögum og fleiri lögum er snerta fasteignir.

Fossalögin 1907, fyrsta viðleitnin til að takmarka eignakaup útlendinga

Ellefu árum fyrir fullveldi Íslands 1918 voru alþingismenn farnir að huga að rétti útlendinga til að kaupa íslenskar fasteignir, samanber Fossalögin. Árið áður hafði norska þingið samþykkt ,,paník-lögin“ svokölluðu, til að hindra að útlendingar keyptu norskt land og þar með náttúrugæði eins og skóga og fossa. Á Íslandi 1907 þótti ótrúlegt að útlendingar gætu haft áhuga á öðru en íslenskum fossum, þar af fossalögin; fyrsta takmörkun á rétti útlendinga til fasteignakaupa á Íslandi.

Nýtt frumvarp, nú vegna samþjöppunar eignarhalds

Spólum fram á okkar daga, að nýju stjórnarfrumvarpi sem varðar eignarhald náttúrugæða. Ekki sprottið af áhuga útlendinga á fossum heldur samþjöppun eignarhalds laxveiðijarða. Í frumvarpinu eru því breytingar á fernum lögum, meðal annars þinglýsingalögum og jarðalögum; varða eignarráð og nýtingu fasteigna og snúast meðal annars um gagnsæi og landnýtingu.

Vandinn er ekki erlent eignarhald heldur samþjöppun og ógagnsæi

Í nýja frumvarpinu kemur glöggt fram að vandinn er í sjálfu sér ekki erlent eignarhald heldur samþjöppun eigna og ógagnsætt eignarhald. Í greinargerð frumvarpsins segir að erlendir lögaðilar með óljóst eignarhald hafi ,,keypt nokkurn fjölda jarða í vissum landshlutum.“ Kaupverð eigna sé oft ekki upplýst í þinglýstum afsölum, sem þá torveldi til dæmis ákvörðun fasteignamats.

Viðbrögð við jarðakaupum Ratcliffes

Lýsingin á við jarðakaup stærsta landeiganda á Íslandi. Könnun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í haust sýndi að breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe á eða á ítök í 41 jörð, flestar við átta laxveiðiár á Norðausturlandi. Og hann á líka stærstu jörð á Íslandi, Grímsstaði á Fjöllum. Allir vita hver eigandinn er en nafn Ratcliffes er hvergi nefnt í opinberum skjölum og skrám.

Ógagnsæi auðveldaði uppkaup Ratcliffes

Hugum fyrst að gagnsæinu, öllu heldur skorti á því. Það kom ekki til sögunnar með kaupum Ratcliffes. Obbann af laxveiðijörðunum keypti Ratcliffe af umsvifamanninum Jóhannesi Kristinssyni. Spegillinn hefur áður bent á að þar sem Jóhannes átti þessar jarðir í gegnum aflandsfélagið Dylan Holding í Lúxemborg, án þess raunverulegur eigandi Dylan kæmi fram í opinberum íslenskum gögnum, var þegar búið að aflandsvæða þessi náttúrugæði. Ógagnsæi í skjóli aflandsvæðingar bæði faldi raunverulegt eignarhald og auðveldaði Ratcliffe að kaupa jarðir í tugatali utan sjónmáls.

Engar verðupplýsingar og tröllasögur

Liður í ógagnsæinu er líka að kaupverð jarða Ratcliffes kemur sjaldnast fram í opinberum skjölum. Ýmsar tröllasögur hafa verið á kreiki um að hann hafi goldið hátt verð fyrir jarðirnar. Einn heimildamaður Spegilsins, með innsýn í kaupin, telur svo ekki vera. Ratcliffe frekar gert góð kaup en seljendur góða sölu.

Frumvarpsgrein gegn samþjöppun

Sjöunda grein nýja frumvarpsins fjallar um hvenær ráðstöfun fasteignar er háð ráðherraleyfi, til dæmis þegar kaupandi á margar eignir fyrir. – Í samráðisferlinu á hugsanlega eftir að koma í ljós að heimildirnar þyki enn of rúmar til að hindra samþjöppun. Í þessari grein er líka kveðið á um að ekki sé hægt að fela sig bak við erlent eignarhald; upplýsingar um raunverulega eigendur verði alltaf að liggja fyrir. Þá líka hægt að beita hugtakinu ,,tengdir aðilar“ líkt og í endurskoðun.

Gagnsæi, landnýting og fæðuöryggi – ný sjónarmið síðan 2004

Gagnsæi og landnýting, þá einnig fæðuöryggi, eru mun mikilvægari þættir en var þegar jarðalögunum var breytt 2004. Án gagnsæis fæst til dæmis ekki yfirsýn yfir eignarhald til að móta landnýtingarstefnu. Og í greinargerðinni er hnykkt á að þó Ísland sé stórt miðað við mannfjölda er aðeins um sex prósent af flatarmáli landsins gott ræktarland. Áhugavert út frá fæðuöryggi.

Grundvallarmistök 2004?

Frumvarpið treystir tök nærsamfélagsins á eignum og gæðum en kannski þarf meira til. Árið 2004 var forkaupsréttur sveitafélaga felldur úr jarðalögunum. Eftir á að hyggja telja ýmsir að það hafi verið grundvallarmistök. Ekki af því sveitafélög ættu að kaupa allar jarðir sem eru þar til sölu heldur til að gefa sveitafélaginu innsýn í viðskiptin. Ákvæði nú um ráðherraleyfi ýtir undir samráð við sveitafélögin en enn enginn forkaupsréttur.

Samþjöppun eignarhalds eins og uppblástur

Umhugsunarefnin hér eru mýmörg. Ýmsir telja að það vanti enn sárlega stefnu sem til dæmis taki tillit til verðmæta í vatnsgnægtum og ósnortnu landi. Að ríkið hefði átt að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Frumvarpið er skref í átt að gagnsæi, veitir ráðherra ramma til athafna, en það tryggir ekki valdbeitingarþrek þegar á reynir. Einn viðmælandi benti á að samþjöppun í eignarhaldi jarða væri eins og uppblástur, fyrst étið af jöðrunum, á endanum aðeins stöku torfur eftir.