Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stærsti báturinn sem sökk í snjóflóðinu náðist á flot

01.02.2020 - 19:04
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Stálbáturinn Eiður ÍS er kominn á flot. Björgunarmenn sem hafa unnið að því undanfarið að ná upp bátunum sem sukku í Flateyrarhöfn í snjóflóðum í síðasta mánuði náðu honum upp í dag. Þar með er búið að ná fimm af sex bátum sem sukku á flot eða koma þeim í land. Aðeins er einn bátur eftir, sá er hálfur á kafi í höfninni, og óvíst hvað verður gert við hann.

Tilraunir til að ná stálbátnum Eiði á flot eru langviðamesta verkefnið við að bjarga bátunum sem sukku í snjóflóðunum. Báturinn var á hvolfi. Því þurfti að snúa honum við í höfninni og koma á réttan kjöl áður en lengra yrði haldið. Það tókst í fyrrakvöld. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV

Þá tók við vinna við að þétta bátinn og dæla úr honum sjó svo hægt væri að ná honum á flot. Sú vinna var í fullum gangi í gær og þegar komið var fram á kvöld var reynt að ná bátnum upp. Það gekk ekki.

Því var vinnunni haldið áfram í dag. Hún bar loks árangur síðdegis þegar tókst að lyfta Eiði ÍS þannig að hann flýtur nú í höfninni. Enn á þó eftir að dæla úr honum meiri sjó. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV

Búið var að ná fjórum trillum upp áður en Eiði var lyft. Tveir plastbátar eru komnir á land, mjög illa farnir, og tveir eru bundnir við bryggju. Trébáturinn Orri strandaði í fjörunni. Hann er ótryggður og ekki hefur verið ákveðið hvað verður gert við hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV