Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stærsta píramídasvindl sögunnar

Skjáskot af búlgarska fjölmiðlinum blitz.bg - Mynd: blitz.bg / RÚV
Rafdrottningin Ruja Ignatova stofnaði rafmyntina OneCoin, eina allra stærstu svikamyllu sögunnar. Ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir var besta vinkona hennar og skipulagði viðburði fyrir OneCoin. Rafdrottningin hvarf fyrir tveimur árum og píramídinn hefur hrunið þótt enn sé verið að selja fólki drauminn um skjótfenginn gróða. Þúsundir milljarða hafa tapast.

Risastórar OneCoin-samkomur voru haldnar um allan heim, samkomur sem minntu helst á trúarvakningu eða trúboð sértrúarsafnaðar. Dr. Ruja Ignatova kallaði sig Cryptoqueen eða rafdrottninguna. Hún lærði í Oxford, var doktor frá Konstanz og hafði unnið fyrir stórfyrirtæki eins og McKinsey og Company. Hún hafði verið fyrirlesari á ráðstefnu hjá hinu virta Economist. Hún boðaði framtíðina og auðvelda leið til ofsafengins gróða.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Ólafur Jóhann Ólafsson notaður á svindlsíðu

OneCoin var í raun bara risastórt Ponzi-svindl sem byggist á hefðbundnu píramídakerfi þar sem upphafsmennirnir hagnast gríðarlega en þeir sem eru neðar í keðjunni sitja eftir með sárt ennið. Ruja Ignatova var hugmyndafræðingurinn og stofnandi fyrirtækisins en ýmsir sem hafa tengst rekstrinum eiga sögu í sambærilegum svikamyllum og jafnvel skipulagðri glæpastarfsemi. Vinkona rafdrottningarinnar Ruju Ignatovu var og er Ásdís Rán Gunnarsdóttir, þekkt sem ísdrottningin. Hún skipulagði viðburði fyrir OneCoin. OneCoin sætir lögreglu- og skattrannsóknum víða um heim en Ásdís Rán segist samt ekki líta svo á að OneCoin sé svikamylla.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Peningar eru í raun bara hugtak og verðgildið byggist á trausti. Rafmynt er þar engin undantekning en þar byggist traustið á svokallaðri bitakeðju, eða blockchain, sem byggð er á flóknum tölvukóða eða keðju rafrænna skjala með öllum viðskiptum. Framboð og eftirspurn ræður markaðsvirði og enginn á að geta fitlað við verðgildið. Vandamálið við OneCoin var að þar var engin bitakeðja eða blockchain. Starfsmenn fyrirtækisins gátu því í raun skráð hvaða verðgildi sem var og vitanlega hækkaði verðgildi OneCoin gríðarlega, að minnsta kosti sem upphæðir á tölvuskjám. Ofsagróðinn var innihaldslaus.

Mynd með færslu
 Mynd: Björg Magnúsdóttir
Ásdís Rán Gunnarsdóttir

Allir höfðu beðið eftir því að geta skipt ímynduðum gróða í beinharða peninga og það átti loksins að verða að veruleika á risastórri samkomu í Lissabon í Portúgal í október árið 2017. Eftirvæntingin var gífurleg en rafdrottningin mætti ekki, hún hreinlega hvarf af yfirborði jarðar. Sögur fóru á kreik um að hún hefði verið ráðin af dögum, hugsanlega stæðu bankarnir á bak við það eða glæpasamtök. En í raun gekk hún í björg. Í gögnum alríkislögreglunnar FBI kemur fram að 25. október, tveimur vikum eftir að hún átti að vera á samkomunni í Lissabon, fór hún um borð í flugvél Ryanair frá Sofíu, höfuðborg Búlgaríu, til Aþenu, höfuðborgar Grikklands. Síðan hefur opinberlega ekkert til hennar spurst.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons

Jamie Bartlett fjallar um svikamylluna á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Hann varði mörgum mánuðum í rannsóknir sínar á OneCoin. Viðmælendur hans segja að svindlið hafi farið úr böndunum. Hún hafi misst stjórn á atburðarásinni og látið sig hverfa. Bróðir hennar, Konstantin Ignatov, tók við rekstrinum og dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna fullyrðir að hann tengist augljóslega skipulagðri glæpastarfsemi í Austur-Evrópu. Hann var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles í Bandaríkjunum í mars, á leið heim til Búlgaríu. Til að bjarga eigin skinni samdi hann við yfirvöld og játaði sinn þátt í svikamyllunni. Þetta varð opinbert fimmta þessa mánaðar þegar hann vitnaði gegn lögfræðingnum Mark Scott sem sakaður er um peningaþvætti á 400 milljóna dollara hagnaði OneCoin í Bandaríkjunum. Scott var í síðustu viku dæmdur fyrir sinn þátt í svikamyllunni en segist bara hafa gert það sem Ruja Ignatova fyrirskipaði. Hún hefur verið ákærð fyrir gríðarlega umfangsmikil fjársvik og peningaþvætti. Bróðirinn segir að rafdrottningin hafi verið orðin hrædd um líf sitt og látið sig hverfa. Sala á OneCoin hefur dregist verulega saman í Evrópu en sala í Asíu og sérstaklega í Afríku hefur blómstrað. Sögurnar sem raktar eru í umfjöllun BBC eru sorglegri en tárum taki. Fátækt og illa upplýst fólk er enn að leggja fram fé í von um skjótfenginn gróða.

Skjáskot af búlgarska fjölmiðlinum blitz.bg
Skjáskot af búlgarska fjölmiðlinum blitz.bg Mynd: blitz.bg - RÚV
Ruja Ignatova og Ásdís Rán Gunnarsdóttir

Jamie Bartlett leitaði í marga mánuði að rafdrottningunni Ruju Ignatovu. Þjónar á fínum veitingahúsum í Aþenu höfðu séð hana, hún á að hafa sést víða í Búlgaríu, Rússlandi, Dubai, Schramberg, Waltenhofen og jafnvel í London. Dóttir hennar og fyrrverandi eiginmaður eru í Frankfurt og þar á hún að dvelja tíðum. Svo er sagt að hún þvælist um Miðjarðarhafið á snekkju og að hún njóti verndar valdamikilla manna í Austur-Evrópu. Bartlett fékk fullt af vísbendingum, en enga óyggjandi staðfestingu. Drottningin er týnd og tröllum gefin.