Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stærsta fríverslunarsvæði heims í burðarliðnum

29.06.2019 - 03:03
epa07672894 European Commission President Jean-Claude Juncker gives a joint press conference witgh the President of the Slovak Republic Zuzana Caputova (not seen) at the end of a meeting at the European Commission in Brussels, Belgium, 25 June 2019.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eftir hartnær 20 ára viðræður - með hléum þó - náðu fulltrúar Evrópusambandsins og suður-ameríska ríkjabandalagsins Mercosur loks að koma sér saman um öll meginatriði fríverslunarsamnings í liðinni viku og leggja þar með grunninn að stærsta fríverslunarsvæði heims. Fulltrúar beggja samtaka staðfestu þetta við alþjóðlegar fréttastofur á föstudag. Nær 800 milljónir manna búa í Evrópusambandinu og ríkjunum fjórum sem mynda Mercosur; Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ.

Sögulegur samningur

Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir þetta skýrt merki til umheimsins á tímum vaxandi togstreitu í alþjóðaviðskiptum. Segir hann samninginn sögulegan og „þann stærsta í sögu Evrópusambandsins." Myndun þessa risavaxna fríverslunarsvæðis sé feikilega góð jákvætt skref fyrir fyrirtæki, launþega og efnahagslífið allt í löndunum sem það nær til.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, fagnar tíðindunum ekki síður og segir líka að samningurinn sé sögulegur. „Þetta verður einn mikilvægasti viðskiptasamningur allra tíma og mikil lyftistöng fyrir efnahagskerfi okkar," skrifar forsetinn á Twitter.

Áhyggjur af umhverfisáhrifum

Samkvæmt framkvæmdastjórn ESB gengur samningurinn ekki einungis út á tollfrjáls viðskipti heldur eru einnig í honum ákvæði sem ætlað er að vernda umhverfið og réttindi verkafólks og auka gæði framleiðslunnar.

Ekki eru þó allir sannfærðir um ágæti samningsins. Eitt helsta áhyggjuefnið austan Atlantsála er að aukinn aðgangur suður-amerískra kjötframleiðenda að Evrópumarkaði ýti enn undir ruðning skógar á Amazon-svæðinu til að rýma fyrir fóðurrækt.

Jafnvægi í viðskiptunum

Mercosur-ríkin selja einkum matvæli, drykki og tóbaksvörur til Evrópusambandsins, sem aftur selur einna helst vélar, tæki, samgöngutækni, lyf og efnavöru til Suður-Ameríkuríkjanna. Viðskiptin eru í nokkuð góðu jafnvægi milli viðskiptablokkanna tveggja; 2018 fluttu Mercosur-löndin inn varning frá Evrópu fyrir um 45 milljarða evra en varningur fyrir 42,6 milljarða evra fór í hina áttina.