Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stærðar hnúfubak rak á land í Reynisfjöru

11.03.2020 - 22:16
Stærðarinnar hnúfubak hefur rekið á land í Reynisfjöru. Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að hnúfubakurinn sé nokkuð heillegur en hann var dauður þegar hann fannst á mánudagsmorgun. Ekki sé algengt að hvali reki á land í Reynisfjöru en þó sé suðurströndin þekkt svæði. 

 

 

Gunnar segir að engin hætta stafi af hræinu. Búið sé að gera göt á hvalinn svo hann springi ekki og þá liggur hann töluvert frá hefðbundnum ferðamannastað í Reynisfjöru. 

„Reyndar hefur veðrið líka verið snarvitlaust þannig að það eru engir ferðmenn á svæðinu. Þetta er þar sem lokun hefur verið í gildi á Þjóðveginum. Hann er í fjöruborðinu en við teljum hann vera það langt frá svæðinu að fólk á ekki að vera mikið að labba þarna.“

Vonast til að flóðið skoli hvalnum burt

Lögreglu, Hafrannsóknarstofnun, Heilbriigðiseftirliti Suðurlands og landeiganda hefur verið gert viðviðvart. Að sögn Gunnars er nú beðið eftir flóði en reki hvalinn ekki á haf út með því verði hvalurinn urðaður. Þurfi að grípa til þess kemur það í hlut landeiganda sem fylgist vel með hræinu.