Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Staðgöngumæðrun verði lögleg hérlendis

13.10.2015 - 23:36
Mynd með færslu
Á umræddum ársfjórðungi fæddust 950 börn. Mynd: RÚV - Kastljós
Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga sem heimila staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni. Samkvæmt frumvarpinu getur sambúðarfólk eða einhleypir fengið leyfi til staðgöngumæðrunar, en óheimilt er að greiða sérstaklega fyrir það.

Í frumvarpinu eru sett ýmis skilyrði fyrir staðgöngumæðrun, svo sem að staðgöngumóðirin eigi lögheimili á Íslandi eða hafi búið hér í minnst fimm ár, og hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar á landinu.  

Staðgöngumóðir eða maki hennar mega ekki vera systkin væntanlegra foreldra og ekki skyld í beinan legg. Þá er þess krafist að staðgöngumóðir eigi að baki að minnsta kosti eina fæðingu og liðin séu að lágmarki tvö ár frá því. Síðasta meðganga hennar má ekki hafa endað með fósturláti eða fæðingu andvana barns.

Skylt er að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra. Óheimilt er að nota kynfrumur staðgöngumóður, maka hennar eða þeirra sem eru skyldir þeim. Hver staðgöngumóðir getur þrisvar gengið með barn fyrir aðra.

Refsivert að auglýsa staðgöngumóður eða eftir henni
Bannað er að auglýsa eftir staðgöngumóður eða hafa milligöngu um staðgöngumæðrun. Brot við því er refsivert og varðar sekt að lágmarki hálfri milljón og fangelsi allt að þremur árum.