
Staðfest smit á Grenivík
„Við höfum nú verið rækilega minnt á það að við erum órjúfanlega tengd umheiminum. Eitt smit hefur nú verið staðfest á Grenivík,“ segir í tilkynningu frá sveitarstjóra.
Viðkomandi hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví og ekki talin hætta á að hann hafi smitað aðra. Einn var settur í sóttkví vegna smitsins. Allir eru hvattir til að fara að fyrirmælum um umgengni og virða fjarlægðarmörk þar sem við á.
Næstu vikur munu reyna á
Sveitarfélagið hefur gripið til ýmissa ráðstafana upp á síðkastið en frá og með deginum í dag eru skrifstofur hreppsins lokaðar fyrir utanaðkomandi umferð. Grunnskólanum hefur verið hópaskipt og er foreldrum bent á að eftir því sem samgangur barna utan skóla sé minni því minni séu áhrifin þegar smit kemur upp. Með því að fækka í þeim hópi sem þurfi í sóttkví hverju sinni aukist líkurnar á að geta haldið samfélaginu gangandi.
Að lokum segist sveitarstjóri eiga von á því að næstu vikur og mánuðir reyni verulega á. Mikilvægt sé að sýna æðruleysi og hlúa hvort að öðru og sjálfum okkur.