Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Staðfest smit á Grenivík

19.03.2020 - 14:33
epa08199489 A staffer works in the pop-up Huoyan Laboratory specialized in the nucleic acid test on the novel coronavirus (2019-nCoV) in Wuhan, Hubei province, China, 06 February 2020 (issued 07 February 2020). The P2-level biosafety lab was built in five days, designed to perform 10,000 coronavirus tests per day to cope with the outbreak. The virus, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 638 people and infected over 31,000 others, mostly in China.  EPA-EFE/SHEPHERD ZHOU CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FeatureChina
Eitt smit kórónaveirunnar hefur nú verið staðfest á Grenivík. Ekki er talin hætta á að veiran hafi dreift sér en einn var settur í sóttkví. Sveitarstjóri segir að næstu vikur eigi eftir að reyna á.

„Við höfum nú verið rækilega minnt á það að við erum órjúfanlega tengd umheiminum. Eitt smit hefur nú verið staðfest á Grenivík,“ segir í tilkynningu frá sveitarstjóra.

Viðkomandi hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví og ekki talin hætta á að hann hafi smitað aðra. Einn var settur í sóttkví vegna smitsins. Allir eru hvattir til að fara að fyrirmælum um umgengni og virða fjarlægðarmörk þar sem við á. 

Næstu vikur munu reyna á

Sveitarfélagið hefur gripið til ýmissa ráðstafana upp á síðkastið en frá og með deginum í dag eru skrifstofur hreppsins lokaðar fyrir utanaðkomandi umferð. Grunnskólanum hefur verið hópaskipt og er foreldrum bent á að eftir því sem samgangur barna utan skóla sé minni því minni séu áhrifin þegar smit kemur upp. Með því að fækka í þeim hópi sem þurfi í sóttkví hverju sinni aukist líkurnar á að geta haldið samfélaginu gangandi. 

Að lokum segist sveitarstjóri eiga von á því að næstu vikur og mánuðir reyni verulega á. Mikilvægt sé að sýna æðruleysi og hlúa hvort að öðru og sjálfum okkur.