Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Staðfest að Epstein fyrirfór sér

epa07775261 A view of the Metropolitan Correctional Center, the prison where the US financier Jeffrey Epstein was found dead in his jail cell on 10 August 2019, in New York, New York, USA, 15 August 2019. An autopsy report released today by New York City’s chief medical examiner indicated that Epstein had broken bones in his neck that sometimes are connected to a suicide, but are more common in victims of strangulation.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Krufning á líki kynferðisglæpamannsins og auðkýfingsins Jeffrey Epstein leiddi í ljós að hann fyrirfór sér í fangaklefa sínum. New York Times greinir fyrst frá þessu. Epstein er sakaður um kynlífsmansal og nauðganir á ungum konum og allt niður í 14 ára gömlum börnum.

Epstein, sem var 66 ára, átti yfir höfði sér allt að 45 ára fangelsi yrði hann fundinn sekur. Hann sat inni fyrir að brjóta gegn tugum táningsstúlkna á milli áranna 2002 og 2005. Saksóknarar hafa heitið því að halda rannsókn máls hans áfram.

Times hefur eftir starfsmönnum innan embættis dánardómstjóra að Epstein hafi notað lak til að hengja sig í fangaklefanum. Við það hafi tungubein hans brotnað, hafa fjölmiðlar vestanhafs eftir embættismönnum. Alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið rannsaka nú hvernig einn þekktasti glæpamaður landsins gat fyrirfarið sér í klefa sínum. Nokkrum vikum áður hafði hann reynt það, og var hann þá undir sérstöku eftirliti fangavarða um tíma. Tveir fangaverðir voru reknir eftir andlát Epsteins og fangelsisstjórinn var færður til í starfi.

Degi áður en Epstein fyrirfór sér birtust dómsskjöl í fjölmiðlum þar sem eitt fórnarlamba hans lýsti dvöl sinni hjá honum. Hún sagði hann hafa notað sig sem kynlífsþræl, og hún hafi verið neydd til samræðis við þekkta stjórnmálamenn og viðskiptajöfra. Saksóknarar ætla að kafa í málið og sækja alla þá til saka sem tóku þátt í glæpum Epsteins. 

Fjöldi samsæriskenninga fór á kreik eftir andlát Epstein í fangelsinu. Hann átti marga þekkta og valdamikla vini, á borð við Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Andrés Bretaprins og núverandi Bandaríkjaforseta Donald Trump. Trump deildi færslu á Twitter þar sem Clinton er sakaður um að hafa átt þátt í andláti Epsteins á einhvern hátt. Þeirri kenningu hefur nú verið hnekkt.