Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Spyrjast fyrir um 600 bitcoin-tölvur í Kína

02.05.2018 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Lögreglan á Suðurnesjum, með aðstoð alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra, hefur sent fyrirspurn til kínverskra lögregluyfirvalda um 600 tölvur, sérhannaðar til að framleiða Bitcoin-rafmynt, sem hald var lagt á þar ytra í síðustu viku. Þetta staðfestir Jóhannes Jensson yfirlögregluþjónn.

Kínverska ríkisfréttastofan greindi frá því á þriðjudag fyrir rúmri viku að lögreglan í Tianjin hefði lagt hald á 600 slíkar tölvur eftir að óeðlilega mikil raforkunotkun mældist. Sex manns séu grunaðir um að hafa staðið fyrir einhverjum umfangsmesta raforkuþjófnaði síðari ára þar í landi.

Þetta eru jafnmargar tölvur og stolið var úr þremur gagnaverum hér á landi í desember og janúar. Þær eru enn ófundnar. Lögreglan á Suðurnesjum hafði ekki séð kínversku fréttirnar þegar fréttastofa hafði samband vegna þeirra fyrir helgi. Jóhannes segir að eftir ábendingu fréttastofu hafi lögregla sent fyrirspurn út á föstudag en svar hafi enn ekki borist. Séu þetta sömu tölvurnar ætti að vera hægt að greina það, meðal annars á raðnúmerum.

Eigendur tölvubúnaðarins sem stolið var úr gagnaverunum hafa lofað sex milljónum króna í fundarlaun en engar haldbærar ábendingar hafa hins vegar borist. Fresturinn sem gefinn var rennur út í dag. Sindri Þór Stefánsson, sem sat í gæsluvarðhaldi grunaður um að standa að baki innbrotunum, strauk úr fangelsinu að Sogni og er nú í gæsluvarðhaldi í Hollandi og bíður framsals til Íslands.