Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Spyr hvort verið sé að velja að fara illa með almannafé

28.11.2019 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, velti því upp í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag, hvort verið að velja að fara illa með almannafé með því að setja auknar byrðar á Ríkisútvarpið og skylda félagið til að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur þess án þess að nauðsyn bæri til.

Björn Leví sagði að bent hefði verið á að stofnun slíks félags væri óþörf og gæti leitt til óhagræðis fyrir Ríkisútvarpið. Þá gengi íslenska lagaákvæðið lengra en Evrópureglur kveða á um. Jafnframt hefði það verið álit fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, í samtölum við Ríkisendurskoðun, að það væri óþarfi að stíga þetta skref. „Það var alla vega fyrra álit. Þannig að það er áhugaverð togstreita þarna,“ segir hann.  

Vill auka gegnsæi

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði að samkvæmt lögum ætti að setja slíkt dótturfélag á laggirnar. Það væri ekki valkvætt að fara að lögum. Það væri brýnt að stofna slíkt félag og það væri liður í því að auka á gagnsæi og aðgerðir varðandi fjölmiðlamarkaðinn sem sé að breytast hratt alls staðar. 

Það þyrfti að hlusta á og taka mið af þeim breytingum og miða að því að bæði opinberir og einkareknir fjölmiðlar gætu verið í samkeppni við aðra miðla. Því þyrfti að styrkja umgjörð í kringum þá. Verið væri að vinna að því núna. 

Þá sagðist Lilja hafa ákveðið að taka af allan vafa um að stofna ætti dótturfélagið þar sem hún hefði ekki verið hrifin af þeirri frestunaráráttu sem virtist hafa einkennt málið. Stofnun dótturfélags hefur verið frestað tvívegis. 

Biðu með stofnun félagsins vegna óvissu

Í nýlegri yfirlýsingu frá Ríkisútvarpinu segir að ákveðið hafi verið að bíða með stofnun dótturfélags um samkeppnisrekstur vegna „þeirrar alvarlegu óvissu sem gætti um fjárhagslegar afleiðingar þess, sem hefði getað falið í sér stórfelldan niðurskurð á grunnþjónustu RÚV.“ Því hafnar Ríkisendurskoðun. Þá væri það ónauðsynlegt þar sem bókhaldslegur aðskilnaður samkeppnisreksturs og almannaþjónustu RÚV væri þegar með fullnægjandi hætti.

Í yfirlýsingunni segir að skilningur stjórnenda RÚV sé sá að vilji stjórnvalda standi til þess að fella þetta ákvæði úr lögum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ekki sé valkvætt að fara að lögum. „Það er skylda RÚV ohf. að fara eftir þeim. Sé það aftur á móti vilji stjórnvalda að félagið raungeri ekki ákvæðið ber þeim að stuðla að því að það verði fellt brott úr lögum. Á meðan svo er ekki ber RÚV ohf. að uppfylla lagalegar skyldur sínar.“

Í yfirlýsingu frá stjórn RÚV segir að vinnuhópur hafi verið skipaður. Hópurinn muni hefjast handa við að undirbúa stofnun dótturfélags í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið án frekari tafa.