Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spyr hvort upplýsingum sé vísvitandi haldið leyndum

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Tryggingastofnun lét hjá líða að upplýsa konu um rétt hennar til barnalífeyris þrátt fyrir að allar upplýsingar þar um hafi legið fyrir. Formaður Öryrkjabandalags Íslands segir þetta allt of algengt og veltir fyrir sér hvort þetta sé með vilja gert.

Í áliti Umboðsmanns Alþingis segir að Tryggingastofnun hafi borið að upplýsa konuna um rétt hennar til barnalífeyris þegar hún leitaði til stofnunarinnar árið 2008, enda hafi allar nauðsynlegar upplýsingar legið fyrir hjá stofnunnni.

Konan heyrði fyrst af þessum rétti sínum hjá Öryrkjabandalagi Íslands mörgum árum síðar og hún sótti þá um. Lögum samkvæmt átti hún þá aðeins rétt á barnalífeyri tvö ár aftur í tímann. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir mál konunnar langt í frá einsdæmi. „Það sem er eiginlega alvarlegast í þessu er að Tryggingastofnun upplýsir fólk ekki um réttindi sín og við hljótum að velta því fyrir okkur hvort að það sé gert vísvitandi til að spara ríkinu fé.“

Þuríður Harpa segir að Öryrkjabandalagið hafi margoft bent Tryggingastofnun á þetta en talað fyrir daufum eyrum. „Ég hlýt að reikna með því að Tryggingastofnun gyrði sig í brók og ákveði fari að sinna þessari upplýsingaskyldu sinni mun betur en þau hafa gert.“