Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spyr hvort samstaða sé á Alþingi um nýtt kvótakerfi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmenn spurðu forsætisráðherra um fyrirhugað auðlindaákvæði og umbætur á kvótakerfinu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Forsætisráðherra sagði að það væri mikilvægt að sem breiðust samstaða skapaðist um að auðlindir væru eign þjóðarinnar og enginn gæti fengið þær afhentar með varanlegum hætti. „Þá væri kannski hugsanlega hægt að grafa þá þrætu, varanlega í íslenskri pólitík, ef Alþingi gæti komi sér saman um að samþykkja slíkt ákvæði.“

Tryggja þarf varanlegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hún spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort hún ætlaði að beita sér fyrir sanngjörnu og eðlilegu endurgjaldi fyrir nýtingu þeirra.

Forsætisráðherra sagði það þegar felast í auðlindaákvæðinu sem búið sé að kynna og er í samráðsferli, að enginn geti fengið nýtingarheimildir eða auðlindir í þjóðareign til varanlegra afnota eða eignar. Það sé skýrt í ákvæðinu.

Velti því upp hvort samstaða sé á þinginu um umbætur

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar sagði að fregnir af umsvifum íslenskra útgerðarrisa í Namibíu hefðu minnt marga á það af hverju þeir hefðu orðið „svona brjálæðislega ríkir og voldugir“. Aftur fari allt í háaloft í samfélaginu vegna þess sem fólk telji vera röng aðferð við meðferð veiðiheimilda. 

Nú mætti velta því upp hvort hugsanlega væri að skapast nýr meirihluti á þinginu fyrir löngu tímabærum umbótum á kvótakerfinu sem svo öflug varðstaða hefði verið um, Sagði Guðmundur Andri. „Að allir flokkar á þingi, nema Sjálfstæðisflokkurinn og hliðarflokkur hans, gætu komið sér saman um að koma hér á kerfi sem gæti ríkt sátt um hjá þjóðinni, og koma jafnvel auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem er kveðið á um fullt endurgjald.“

Löng og mikil umræða sem þyrfti að taka

Þá nefndi hann að mögulega væri hægt að sammælast um útboðsleið. Forsætisráðherra benti á að þetta mál hefði verið umdeilt í samfélaginu í mörg ár. Hvað samstöðu á þinginu varðaði sagði hún að Vinstri Græn hefðu meðal annars gagnrýnt útboðsleiðina til dæmis vegna þeirrar samþjöppunar sem henni gæti fylgt. Þetta væri löng og mikil umræða sem þyrfti þó að taka. 

Mikilvægt væri að sem breiðust samstaða skapaðist um að það yrði áréttað að auðlindir væru eign þjóðarinnar og þær yrðu engum afhentar með varanlegum hætti. „Þá væri kannski hugsanlega hægt að grafa þá þrætu, varanlega í íslenskri pólitík, ef Alþingi gæti komi sér saman um að samþykkja slíkt ákvæði, sem ég tel að skipti mestu máli þannig að löggjafinn geti gert þær breytingar á auðlindanýtingu sem hann kýs að gera.“