Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spyr hvort Elliðaárdalurinn hafi verndargildi

11.11.2019 - 20:10
Mynd: RÚV / RÚV
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði umhverfisráðherra í dag út í fyrirhugaðar framkvæmdir í Elliðaárdalnum og hvort víðerni innan höfuðborgarinnar hafi ekki verndargildi.

Í Elliðaárdalnum  stendur til að reisa 4.500 fermetra gróðurhvelfingu. Vilhjálmur kvaðst styðja verkefnið en velti fyrir sér hvort hún ætti ekki frekar heima þar sem byggt hafi verið þétt frekar en að ganga á græn svæði. „Þurfum við ekki að fara varlega þegar við umgöngumst og skipuleggjum svona mikilvæg svæði eins og Elliðaárdalinn undir bílastæði, verslunarrekstur og annað slíkt?“

Í Elliðaárdalnum sé laxveiðiá í miðri borg, þúsunda ára gamalt hraun, einstakt náttúrufar og líffræðilegur fjölbreytileiki sem ríkisstjórnin setji á oddinn í formennsku Íslands í Norðurlandaráði. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók undir með Vilhjálmi mikilvægi þess að skipuleggja græn svæði vel. „Ég tek það þó fram með Elliðaárdalinn að hann nýtur ekki friðlýsingar. Hann er hverfisverndaður líkt og kom fram í máli þingmannsins. Til að hægt sé að fara í eitthvað slíkt þarf að koma til annaðhvort að svæðið sé á áætlunum Alþingis eða að vilji sveitarstjórnar og landeiganda sé fyrir hendi.“

Guðmundur sagði að honum skiljist að það sé mat Reykjavíkurborgar að Elliðaárdalur sé ekki eitt af þeim svæðum sem séu fremst í röðinni í friðlýsingu. Ef ráðast ætti í slíka vinnu þyrfti það að vera inni á áætlunum sem þegar hafi verið samþykktar frá þinginu eða að óskað hafi verið eftir því af landeigendum og sveitarfélögum að ráðist sé í slíkar friðlýsingar. „[O]g eigum við nokkur dæmi um það núna í því friðlýsingarátaki sem á sér stað. En ég tek svo sem ekki sérstaka afstöðu til þess hvort þetta ætti að vera forgangsverkefni eða ekki en bendi á það sem borgin hefur nefnt sjálf.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV