„Spurning hvort þetta sé að verða Ísland í dag“

14.02.2020 - 07:36
Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV
Nóttin hefur verið annasöm í samhæfingastöð almannavarna í Skógarhlíð. Útköll hafa hingað til aðallega verið vegna foktjóns.

„Þetta er aðallega foktjón. Vestmannaeyjar hafa verið áberandi í nótt og síðan hefur þetta færst yfir á Suðurlandið. Það er þetta týpíska, plötur losna af þökum og fleira lauslegt. Samt finnst mér þetta vera í minna mæli. Ég held að fólk hafi farið eftir tilmælum um að festa hluti,“ segir Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarna hjá Ríkislögreglustjóra. 

Fólk á undan veðrinu 

Aðgerðastjórnir hafa verið virkjaðar í Reykjavík, á Suðurlandi, í Vestmannaeyjum og víðar. 

„Menn eru bara að undirbúa sig. Fólk er aðeins á undan veðrinu að gera sig klárt,“ segir Hjálmar. 

Eitthvað flökt hefur verið á rafmagni. „Þetta er ekkert stórvægilegt. Ég vona að fólk misskilji mig ekki en þetta er ekkert í líkingu við það sem við sáum í desember.“ 

Líklega minni umferð en venjulega

Hjálmar gerir ráð fyrir að umferð verði minni en á venjulegum föstudagsmorgni.

„Vegna þess að það hafa komið tilmæli og fyrirtæki hafa verið að opna seinna og hafa lokað. Skólar lokaðir, leikskólar og strætó fer ekki af stað fyrr en seinna. Ekki má gleyma sundlaugnum, þær eru lokaðar. Þannig að það er svona þessi hefðbundna þjónusta sem er dagsdaglega, henni seinkar eða það er lokað.“

Vont veður frá því í nóvember

Hjálmar segir vissulega óvenjulegt að fjögur óvissustig séu í gildi fyrir landið.

„Þetta er óvenjulegt. Þessi vetur er búinn að vera svolítið, eigum við ekki að segja bara skrítinn. Það eru búin að vera þannig verkefni hjá okkur. Líka þetta veður sem við höfum haft, það er eiginlega búið að vera svona frá því mánaðamótin nóvember–desember. Spurning hvort þetta sé að verða Ísland í dag,“ segir hann. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV