Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Spurning að borga bara rafmagnið

03.12.2015 - 10:32
Mynd: Morgunblaðið/Ómar / Rio Tinto Alcan
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, segir að sú spurning komi upp hvort tapið á rekstri álversins í Straumsvík sé svo mikið að það borgi sig að borga bara rafmagnið og vera ekki í öðrum rekstri. Þetta segir hún aðspurð um kjaradeiluna við starfsmenn og þá stöðu sem var komin upp að það stefndi í lokun álversins.

Rannveig var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Þar var hún spurð út í raforkusamninginn við Landsvirkjun og hvort það hefði nokkuð komið til greina að loka álverinu. Það hefði hvort eð er þurft að greiða fyrir raforkuna. „Er tapið svo mikið að það borgi sig að borga bara rafmagnið? Og vera ekki í neinum öðrum rekstri. Það er auðvitað spurning sem kemur upp. Það eru margar hliðar á þessu máli en ég get ekki rætt raforkusamninginn," svaraði Rannveig.

Hún sagði að verðlækkun á áli væri óvenju djúp og langvarandi. Á sama tíma þyrfti að greiða hátt raforkuverð. Rannveig hefur trú á að álverð hækki á ný en ekki næstu eitt til tvö árin. „Ég er búin að vera 25 ár í þessum iðnaði og eina sem ég veit um álverðið er að það hegðar sér ekki eftir spánum. Þegar menn spá því mjög langt niður hefur það tilhneigingu til að fara aftur upp."

„Kannski gasalegast efst“

Rannveig andmælti orðum starfsmanna um að lítið hafi verið sparað í yfirstjórn fyrirtæksins. Hún sagði að dregið hefði verið úr kostnaði: „Kannski enn gasalegast efst."

„Við erum búin að fækka í æðstu framkvæmdastjórn, við erum búin að fækka núna um tvo. Ég er ein forstjóri bæði fyrir fyrirtækinu og verksmiðjunni, ef þú lítur á hin álverin eru þau með tvo forstjóra, til skamms tíma fyrir austan og í Hvalfirði eru tveir, verksmiðjustjóri, þannig að við erum með færri yfirstjórnendur en aðrir." Þá lækki bónusar þegar verr gengur.

Setji engan út fyrir hlið

Störfin sem álverið vill bjóða upp eru þau sem eru unnin í höfninni, við hliðið, í mötuneytinu og þvottahúsinu, sagði Rannveig. Samanlagt séu þetta 32 störf, mun færri en starfsmenn hafa talað um. „Þeir eru að telja þetta einhvern veginn allt öðruvísi en við erum að bjóða í samningnum. Þetta er það sem við erum að bjóða og við erum að bjóða það að það fólk sem starfar í þessum störfum núna fái aðra vinnu hjá ISAL. Þannig að við erum ekki að setja neinn út fyrir hlið."