Spurðu Katrínu út í viðbrögð Bjarna og Kristjáns Þórs

18.11.2019 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þingmenn stjórnarandstöðunnar spurðu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um afstöðu hennar til ummæla samráðherra hennar í ríkisstjórninni, þeirra Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um Samherjamálið.

Undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir beindi Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, athyglinni á ummælum Bjarna þar sem hann sagði að rót vandans væri veikt stjórnkerfi og spillt stjórnkerfi í Namibíu. Sagði Logi að þessi viðbrögð hefðu fangað athygli heimspressunnar og birst á fréttavef breska blaðsins Guardian. Logi vildi fá viðbrögð Katrínar við þessum ummælum Bjarna.

Katrín svaraði ekki fyrirspurninni beint en tók fram að á ríkisstjórnarfundi á föstudag hefðu verið kynntar frekari aðgerðir til þess að herða skattaeftirliti og á ríkisstjórnarfundi á morgun verði farið yfir hvað verði hægt að gera til að standa betur að laga- og regluverki til að reyna að koma í veg fyrir að slík mál endurtaki sig. Hún sagði að íslensk stjórnvöld líði það ekki ef fyrirtæki brjóta lög og slík máli fari í réttan farveg.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, vildi vita hver viðbrögð Katrínar væru við þeim upplýsingum Kristjáns Þórs að hann hefði hringt í Þorstein Má Baldvinsson, fyrrverandi forstjóra Samherja, og meðal annars spurt út í líðan hans. Hún vildi líka vita hvort forsætisráðherra hefði ráðfært sig við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands áður en hún lýsti yfir trausti á Kristján Þór. 

„Ég hef ekki séð nein gögn í þessum gögnum sem hafa verið birt sem benda til þess að hæstvirtur ráðherra hafi haft neina vitneskju um það framferði sem birtist í þessum gögnum. Ég vil því biðja háttvirtan þingmann að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að við kynnum okkur gögnin. Ég leitaði ekki  ráðgjafar Siðfræðistofnunar. Hins vegar stendur hún öllum ráðherrum til boða. En afstaða mín grundvallast á því að það er ekkert í þeim gögnum sem birtust í síðustu viku um það að hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi haft neina vitneskju um þetta mál,“ sagði Katrín. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi