Sprenging í efnaverksmiðju í Texas

27.11.2019 - 10:46
Himininn lýstist upp eftir sprenginguna í Texas í morgun. - Mynd: Skjáskot/AP / Skjáskot/AP
Að minnsta kosti tveir slösuðust þegar sprenging varð í efnaverksmiðju í Port Neches í austurhluta Texas í morgun, en þá var klukkan eitt að nóttu að staðartíma.

Mikill eldur blossaði upp við sprenginguna, sem var það öflug að hún fannst í margra kílómetra fjarlægð. Meðal annars brotnuðu rúður í húsum. 

Fleiri sprengingar hafa fylgt í kjölfarið og hafa yfirvöld látið rýma hús í næsta nágrenni eða allt að 800 metra fjarlægð. Þau telja ekki útilokað að rýmingarsvæðið verði stækkað.

Samkvæmt fréttastofunni AP hafa 175 fastráðnir starfsmenn unnið við verksmiðjuna og um 50 verktakar. Að sögn lögreglu er leit hafin við verksmiðjuna og farið sé hús úr húsi í næsta nágrenni hennar til að kanna aðstæður.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi