Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Spillingar- og hneykslismál í Svíþjóð

01.12.2018 - 16:29
epa07007934 Ballots papers are prepared at a polling station in Tomelilla, Sweden, 09 September 2018. About 7.5 million Swedes are eligible to vote in the country?s general elections on 09 September that are expected to see huge gains for the far-right
 Mynd: epa
Nokkur fjöldi sænskra stjórnmálamanna hefur þurft að segja af sér eða hætta í stjórnmálum síðustu mánuði vegna hneykslis- og spillingarmála. Ástæðurnar eru misalvarlegar: að uppnefna samstarfsfólk; setja ósmekklegar athugasemdir á Facebook; óeðlilegar endurgreiðslur úr ríkissjóði; og tilraun að grafa undan lýðræði í landinu.

Spillingar- eða hneykslismálin sem komið hafa upp í Svíþjóð síðustu mánuði eru misgróf en oftast enda þau með afsögn eða brotthvarfi viðkomandi úr stjórnmálum. Sérstaklega í aðdraganda þing- og sveitarstjórnarkosninganna sem voru í byrjun september. Sá sem hættir segir þá ef til vill eitthvað á þá leið að hann vilji ekki að málið verði flokki sínum fjötur um fót í kosningabaráttunni, skyggi á þau góðu mál sem flokkurinn vill halda á lofti. Og þá fylgir oft að sjálfur hafi hann í raun lítið gert af sér. Þetta sé eiginlega misskilningur bara.

Þrír þingmenn hættu vegna umdeildra akstursgreiðslna

Þannig var því að minnsta kosti farið með Stefan Jakobsson, þingmann Svíþjóðardemókratanna. Hann var einn af mest áberandi þingmönnum flokksins og talsmaður hans í menntamálum. Dagblaðið Aftonbladet afhjúpaði að Jakobsson hafði látið skattgreiðendur borga fyrir ferðalög, gistingar á hótelum og fleira, sem hann hefði í raun átt að greiða úr eigin vasa. 

Meðal annars hafi hann tekið leigubíl fyrir jafnvirði um fjögurrar og hálfrar milljónar íslenskra króna, á einu kjörtímabili. Og látið ríkissjóð greiða ferðalög sín til vina, og á næturklúbba og fyrir sumarfrí fjölskyldu sinnar. Ferð sína og konu sinnar í veislu til flokksformannsins skráði Jakobsson sem “ráðstefnu” og krafðist endurgreiðslu vegna ferðakostnaðar, veitinga og hótelgistingar fyrir þau hjónin.

Jakobsson sagði reyndar að þetta með leigubílana væri bara misskilningur. Hann hafi haldið að kostnaður við einkaerindi yrði það bara dreginn af laununum frá þinginu. Jakobsson kvaðst ætíð reyna að gera það sem rétt er. En málið gerði Svíþjóðardemókrötunum erfitt fyrir í kosningabaráttunni og því rétt að hann dragi framboð sitt til baka.

Önnur rannsókn Aftonbladet leiddi í ljós að Michael Svensson, þingmaður hægriflokksins Moderaterna, hafði ofrukkað þingið um ferðakostnað. Svensson hafði fengið endurgreiddan kostnað vegna aksturs í Svíþjóð, á tímabili sem hann var alls ekki í Svíþjóð, heldur í fríi í Asíu. Á síðasta kjörtímabili fékk Svensson jafnvirði rúmra fimm milljóna íslenskra króna frá sænska þinginu vegna aksturskostnaðar - mest allra þingmanna. Hann sagði einnig af sér.

Ferðakostnaður kostaði alls þrjá sænska þingmenn þeirra pólitíska líf, skömmu fyrir kosningar. Þingkona Kristilegra demókrata sagði af sér eftir að í ljós kom að hún hafði fengið jafnvirði um tveggja og hálfrar milljónar króna í endurgreiðslur. Sumar ferðirnar voru persónulegs eðlis. Ein þeirra ferða sem ekki þótti í lagi var þegar hún ferðaðist frá Stokkhólmi, um fjögur hundruð kílómetra leið heim til fjölskyldu sinnar, og rukkaði skattgreiðendur um kostnaðinn.

Að gæta orða sinna

Í sumar sagði formaður sveitarstjórnar skammt frá Stokkhólmi af sér, í kjölfar samtals á heimili hans. Maðurinn, sem sat í sveitarstjórn fyrir Jafnaðarmenn, sagði í samtali við gesti sína, að tveir nafngreindir kollegar hans, úr öðrum flokkum, væru algerir nasistar. Samtalið var tekið upp leynilega og því dreift á samfélagsmiðlum, og lauk málinu með því að maðurinn sagði af sér.

Frambjóðandi Jafnaðarmanna í öðru sveitarfélagi nærri Stokkhólmi komst í enn klúðurslegra klandur helgi eina í vor. Á Facebook sá hann póst sem sýndi blóð í inngangi fjölbýlishúss. “Ó sjitt! tómatsósa, hmmm” skrifaði frambjóðandinn. Nokkru síðar hófst rannsókn á morðtilraun í húsinu. Frambjóðandinn dró framboð sitt til baka.

Lélegur djókur, óheppilegt like eða bara eitt kúl, getur nefnilega komið fólki í klandur. “Kúl” skrifaði Svíþjóðardemókratinn Hugo Hobringer nefnilega einhvern tíma við innlegg á Facebook. Og eftir að hann var kjörinn í bæjarstjórn í Sölvesborg, aðeins tvítugur að aldri, var kommentið grafið upp og hann fljótur að segja af sér. Hobringer hafði fundist það “kúl” að í Tjétsníu væri verið  að opna fangabúðir fyrir samkynhneigða.

Annar Svíþjóðardemókrati var snarlega tekinn af framboðslista til sveitarstjórnar í Smálöndunum, eftir blaðaviðtal. Þegar frambjóðandinn var spurður hvað það væri sem hann óttaðist mest, svaraði hann: “Ég held að svarið sé þróunin í Miðausturlöndum. Því að þar er allt baneitrað. Arabar eru Arabar, þannig er nú það.” 

Leiðtogi Svíþjóðardemókratanna á staðnum sagði þessi orð ólíðandi og var manninum vikið úr flokknum.

Jafnaðarmenn skrifuðu og dreifðu falsfréttum

Í aðdraganda kosninganna hér í Svíþjóð var mikið rætt um hættuna á erlendum afskiptum, sérstaklega með birtingu falsfrétta og áróðri gervimenna á netinu. Því vakti það eðlilega mikla athygli þegar farið var að fjalla um falsfréttir sem dreift var á arabísku á Facebook, þar sem logið var upp á Moderatana og Svíþjóðardemókratana. Flokkarnir vildu láta loka moskum og taka börn múslíma frá foreldrum sínum. En falsfréttin var ekki ættuð erlendis frá, heldur tókst að lokum að rekja hana til borgarinnar Jönköping, í Mið-Svíþjóð. Höfundurinn, stjórnmálamaður Jafnaðarmanna, sagði af sér í kjölfar þess að málið komst upp, sem og annar Jafnaðarmaður í Gautaborg, sem hafði dreift róginum.

Reyndi að selja 3.000 atkvæði

Alvarlegasta málið sem upp hefur komið er þó líklega tilraun stjórnmálamanns til að selja nokkur þúsund atkvæði. Málið var afhjúpað í fréttaskýringaþætti sænska ríkissjónvarpsins, Uppdrag Granskning, og er allt hið ótrúlegasta. Í apríl - tæpu hálfu ári fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar, var fulltrúum hægriflokksins Moderatarna boðið á fund safnaðar nokkurs í Botkyrka, sveitafélagi í útjaðri Stokkhólms. Forsvarsmenn safnaðarins munu svo hafa boðist til að tryggja flokknum um 3.000 atkvæði, gegn því að flokkurinn beitti sér fyrir því að söfnuðinum yrði tryggð góð lóð undir mosku.

Stjórnmálamenn Moderatarna sögðu pass. En höfðu aftur samband við þann sem hafði skipulagt fundinn nokkru seinna, með fulltingi sænska ríkissjónvarpsins, sem tók samtalið upp.

“Hópurinn hlustar fer gjarna eftir því sem imaminn leggur til”, segir maðurinn. Ef imaminn segi að best sé fyrir söfnuðinn að kjósa Modratarna, þá geri fólk það.

En hver var það sem reyndi að tryggja söfnuðinum lóð í skiptum fyrir um þrjú þúsund atkvæði - nóg til að binda enda á 24 ára samfellda valdatíð vinstriflokka og Græningja í Botkyrka?Það var oddviti Græningja í sveitarstjórninni, Ali Khalil. Hann er þó augljóslega ekki lengur í flokknum.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV