Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spilling, ofbeldi og óeirðir - Ögurstund í Suður-Afríku

09.11.2019 - 07:30
Police clash with protesters outside the U.N. refugee agency's offices in Cape Town, South Africa Wednesday, Oct. 30, 2019. Police used water cannons while dispersing and arresting scores of foreigners who have camped outside the offices for weeks seeking relocation outside South Africa after a wave of attacks on foreigners in cities earlier this year. (AP Photo)
 Mynd: AP
Suður-Afríku hefur verið lýst sem vita syðst í Afríku, fánabera mannréttinda og lýðræðis og pólitískri miðju álfunnar. Landið var eitt sinn stærsta efnahagsveldi Afríku en hefur síðustu ár misst nær alla þessa titla og gengur illa að grafa sig úr viðjum spillingar, óstjórnar og ofbeldismenningar Apartheid-tímans. Það þarf að gjörbylta þjóðfélaginu til að koma því að réttan kjöl á ný. En þetta tekur tíma, og nýjum forseta sem tók við af gjörspilltum Jacobi Zuma í fyrra, sækist verkið seint.

Andúð gegn útlendingum hefur aukist mikið í Suður-Afríku síðustu misseri og ítrekað komið til átaka í Jóhannesarborg milli heimamanna og íbúa af erlendum uppruna. Í byrjun september létu sjö lífið þegar ráðist var á verslanir útlendinga í borginni. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fyrrverandi sendiherra í Suður-Afríku og prófessor í mannfræði við háskóla Íslands, segir að nú sé ögurstund í landinu því það sé erfitt að eiga við þetta ástand vegna þess að menningin í Suður-Afríku sé ofbeldismenning, ofbeldi þyki sjálfsagt. 

Suður-Afríka er gósenland nánast hvernig sem á það er litið. Það er tvöfalt stærra en Frakkland og landflæmið mikið. Gull og eðalmálmar hafa lengi staðið undir meira en helmingi af útflutningi landsins og þar er víða gott ræktarland en mikill skortur á vatni setur þar strik í reikninginn. Það hefur því alla burði til að verða mikið efnahagsveldi, og var framan af þessari öld stærsta efnahagsveldi Afríku. Nú er sá tími liðinn en hvernig stendur á því að lýðræðisþjóðfélag með allar þessar auðlindir á í erfiðleikum?

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Suður-Afríka er ríkt af auðlindum en gull og eðalmálmar hafa lengi staðið undir meira en helmingi af útflutningi landsins.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sem tók við sendiherrastöðu Íslands í Suður-Afríku 2006 en hefur fylgst með þróun mála þar alveg frá því aðskilnaðarstefna hvítra og svartra, Apartheid, var við lýði. „Ég er mannfræðingur að mennt og atvinnu og sérsvið mitt hefur verið mannfræði stjórnmála og það kom því fljót til að ég fór að fylgjast með Suður-Afríku vegna þess að landið er leiðandi í stjórnmálum sunnan Sahara. Var lengstum langsterkasta ríkið efnahagslega og hafði áhrif um gjörvalla álfuna. Þess vegna var sendiráð Íslands staðsett í Suður-Afríku í höfuðborginni Pretoríu því það getum við sagt að sé stjórnmálamiðja þessa meginlands. Og menn verða að vara sig á því að halda að Eþíópía sé hin stjórnmálalega miðja vegna þess að Afríkusambandið er staðsett þar, en það er engan veginn svo. Það væri eins og að segja að New York væri stjórnmálaleg miðja alheimsins vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar eru þar,“ segir Sigríður Dúna. 

Það veltur allt á Afríku

Hún var í nokkur ár í Suður-Afríku og kynntist landi og þjóð vel. Utanríkisráðuneytið heldur ekki lengur úti sendiráði í Suður-Afríku en eitt slíkt er í Malaví og hlutverk þess að gæta hagsmuna Íslands og hafa umsjón með samstarfsverkefnum á sviði þróunarsamvinnu og mannúðarmála. Sigríður Dúna segir að starfið hafi verið mjög pólitískt á þeim tíma sem hún var sendiherra því þá var Ísland í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem síðan var hætt við eftir bankahrunið 2008. „Í Afríku eru 52 ríki og þar með 52 atkvæði hjá Sameinuðu þjóðunum. Og á þessum tíma var Ísland í framboði til öryggisráðsins og þar eru 193 atkvæði þannig að eins og einn þrautreyndur baráttumaður um sæti Norðurlandanna í öryggisráðinu sagði einu sinni við mig, það veltur allt á Afríku, Africa makes it or brakes it eins og þar stendur.“ 

Suður-Afríka með eina bestu stjórnarskrá í heimi

Sigríður Dúna tók við sendiherrastöðunni 2006 en hefur fylgst með þróun mála þar alveg frá því aðskilnaðarstefna hvítra og svartra, Apartheid, var við lýði. „Ríkið hefur einhverja fínustu stjórnarskrá í heimi sem kveður á um fjölflokkalýðræði að vestrænni fyrirmynd, en það hefur ekki tekist að koma því á vegna þess eins og gerist víða í Afríku að þá eru gömlu andspyrnuhreyfingarnar sem börðust fyrir sjálfstæði sinna landa, þær breyta sér í stjórnmálaflokk eftir að fjölflokkalýðræði er komið á og bjóða fram til þings og sveitarstjórna. Og þetta gerðist í Suður-Afríku, að gamla andspyrnuhreyfingin, African national congress, eða Afríska þjóðarráðið eins og við köllum það á Íslensku, að það bauð fram strax og Mandela var laus úr haldi 1994, með Mandela í broddi fylkingar og hafði hreinan meirihluta og það hefur afríska þjóðarráðið síðan haft.“

epa03978389 (FILE) A file picture dated 13 February 1990 of Former South African President Nelson Mandela (R) giving the clenched fist salute as he stands with his wife Winnie Mandela (L) during his 'Welcome Home Rally' in Soweto, South Africa.
 Mynd: EPA
Mandela ásamt konu sinni Winnie á baráttufundi í Soweto í Jóhannesarborg árið 1990.

Það þýðir víst lítið að fjalla um Suður-Afríku án þess að nefna frelsishetjuna Nelson Mandela. Hann var einn af stofnendum afríska þjóðarráðsins og sat í fangelsi í rúm 27 ár fyrir að berjast gegn aðskilnaðarstefnunni. Mandela bjó sem ungur maður í Soweto í Jóhannesarborg en það hefur verið nokkurs konar kofahverfi svartra í áratugi. Það varð til á fjórða áratugnum þegar farið var að aðskilja hvíta og svarta og svörtum var holað niður þar og í Jóhannesarborg er enn að finna þessi kofahverfi. 

„Ofbeldið alveg gríðarlegt“

Suður-afríski grínistinn Trevor Noah lýsti uppvexti sínum í Soweto í bókinni Glæpur við fæðingu sem kom út 2016. Þar lýsir hann þeirri skelfilegu helför sem aðskilaðarstefnan var og tilveru sinni, sem eins og margra annarra var í raun glæpur, og því fór hann huldi höfði sem barn því hann mátti ekki sjást opinberlega með foreldrum sínum af því að þeir voru ekki báðir svartir á hörund. „Sú staðreynd að ég ólst upp í heimi kvenna var engin tilviljun. Aðskilnaðarstefnan hélt mér frá pabba mínum af því hann var hvítur. En þetta átti líka við alla hina krakkana sem ég þekkti í götunni hennar ömmu í Soweto. Aðskilnaðarstefnan tók feður þeirra líka frá þeim, bara af allt öðrum ástæðum,“ segir í bókinni þar sem Noah beitir húmornum til að horfast í augu við uppvöxtinn og ástandið í Suður-Afríku á níunda áratugnum. Tilvera Noah var glæpur, því samkvæmt aðskilnaðarstefnunni mátti fólk af ólíkum kynþáttum ekki eignast börn. „Aðskilnaðarstefnan var svo brútal. Fólk hafði ekki mannréttindi, það var barið og þar fram eftir götum. Í raun og veru er aðskilnaðarstefnan ekki sett í lög fyrr en 1948 en hún hafði viðgengist frá því fyrir aldamótin 1900 þannig að það útaf fyrir sig var ekkert nýtt og ofbeldið alveg gríðarlegt,“ segir Sigríður Dúna.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Aðskilnaðarstefnan sem var við lýði í Suður-Afríku mismunaði fólki og skildi það að eftir kynþætti.

Þróun lóðbeint niður á við undir Zuma

Mandela lést 2013 eftir langa og viðburðarríka ævi. Hann var kjörinn forseti landsins 1994 og gegndi því embætti í eitt kjörtímabil. Eftir það lét hann þó áfram til sín taka sem boðberi nýrrar Suður-Afríku á alþjóðavettvangi. „Mandela er fyrsti forsetinn, verður það 1994. Hann segir af sér sökum aldurs 1999 og það eru margar heimildir fyrir því að hann vildi að Siril Ramaphosa, sem er núverandi forseti Suður-Afríku, tæki við af sér en afríska þjóðarráðið sem er svo valdamikið vildi það ekki og valdi tapo mbeki, sem varð forseti 1999 og var sá forseti sem ég vann með í Suður-Afríku.“ 

Hreinsa út úr helstu stofnunum ríkisins

Mbeki var afrískur þjóðernissinni og vildi að afríkumenn leystu sín vandamál sjálfir, án utanaðkomandi aðstoðar. Mbeki stýrði landinu á uppgangstímum en hann var settur af á landsfundi afríska þjóðarráðsins 2008 og Jacob Zuma var gerður að formanni flokksins. „Síðan byrjar, undir Zuma byrjar þetta skelfingartímabil spillingar. Hann og hans kumpánar, Gupta bræðurnir og fleiri, þeir hreinlega hreinsa út úr helstu stofnunum ríkisins, eins og Escom sem framleiðir rafmagn, það er alltaf rafmagnsleysi annað slagið. Þannig að Zuma og hans vinir hreinsa auðinn úr stofnunum og fyrirtækjum Suður-Afríku. Zuma hefur völd til þess að setja sína menn yfir þessar stofnanir, yfirleitt óhæfa, og það var bara þróun lóðbeint niður á við.

epa05796931 South African President Jacob Zuma (R) shakes hands with deputy president Cyril Ramaphosa (L) following his reply to the debate about his State Of The Nation Address (SONA) in the parliament in Cape Town, South Africa, 16 February 2017. The
Varaforsetinn Ramaphosa (t.v.) heilsar Zuma forseta á þingi 16. febrúar. Mynd: EPA
Cyril Ramaphosa, núverandi forseti, og Jacob Zuma.

Zuma var nauðbeygður til að segja af sér í fyrra vegna ásakana um spillingu. Hann er sakaður um að hafa á löngum stjórnmálaferli staðið í svikum, braski og peningaþvætti, meðal annars í milljarða bandaríkjadala samningum um vopnakaup frá því fyrir aldamót. Hann hefur alla tíð sagt ákærurnar af póltískum rótum runnar en Zuma kemur næst fyrir rétt í mars. Óstjórn í tíð Zuma hefur haft mikil áhrif á efnahag Suður-Afríku og hún er þegar farin að taka sinn toll. Nú er svo komið að landið er ekki lengur með stærsta og sterkasta efnahag sunnan Sahara, Nígería er að taka fram úr henni. 

Vaxandi andúð gegn útlendingum

Þessi tvö af öflugustu ríkjum Afríku hafa lengi barist um yfirráð og nú er Suður-Afríka að verða undir. Og óánægja fólks með efnahagsástandið brýst út með ýmsum hætti, meðal annars í garð útlendinga. Andúð gegn útlendingum hefur vaxið hratt síðustu mánuði og misseri og talið að tugir hafi látið lífið í blóðugum óeirðum og árásum á verslanir og íbúðir innflytjenda í Jóhannesarborg. Sjö létu lífið í óeirðum í Jóhannesarborg í byrjun september og síðan hefur margoft verið mótmælt og komið til átaka. Stuttu síðar lokaði utanríkisráðuneyti Suður-Afríku öllum ræðisskrifstofum og sendiráðum í nígerísku borgunum Abuja og Lagos. Ráðist var á fyrirtæki í eigu Suður-Afríkubúa í borgunum, í hefndarskyni fyrir árásir á fyrirtæki í erlendri eigu í Jóhannesarborg.

A woman with her belongings leaves the area outside the U.N. refugee agency's offices in Cape Town, South Africa Wednesday, Oct.30, 2019. Police used water cannons while dispersing and arresting scores of foreigners who have camped outside the offices for weeks seeking relocation outside South Africa after a wave of attacks on foreigners in cities earlier this year. (AP Photo)
 Mynd: AP
Fjöldi fólks hefur tjaldað fyrir utan skrifstofur flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Höfðaborg síðustu vikur vegna ofbeldisöldunnar gegn útlendingum í landinu. Þau voru síðan flest fjarlægð með valdi.

Ögurstund í Suður-Afríku

„Það er ögurstund í Suður-Afríku. Það er þessi vaxandi andúð á útlendingum og þær hræðilegu ofbeldisöldur sem ganga yfir landið af þeim sökum og útlendingarnir eru aðallega aðrir afríkubúar. Þetta er ekkert nýtt. Þegar Mugabe, þegar allt fór í bál og brand þar í Simbabve 2008, þá var ég í Suður-Afríku og hundruð þúsund simbabve-manna streymdu yfir Bulawayo ánna, þar sem er auðvitað ekkert landamæraeftirlit, yfir til suður-afríku. Og ofbeldið lék lausum loga, hús voru brennd ofan af þessu fólki, það var sakað um að taka vinnuna og konurnar, þar var eins og hér með ástandskonurnar. Þeir sem koma, útlendingar koma og taka vinnuna og konurnar, þetta er alltaf saman sagan. Nú er þetta að gerast einu sinni enn. Og þá skulum við átta okkur á því, hvers vegna er svona erfitt að eiga við þetta. Það er vegna þess að menningin í Suður-Afríku er ofbeldismenning, ofbeldi þykir sjálfsagt og þær stofnanir ríkisins sem eiga að vera til varnar gegn ofbeldi, þær eru vanbúnar. Þegar ég var í Suður-Afríku þá réð lögreglan sér einkafyrirtæki, öryggisfyrirtæki til að gæta lögreglustöðvanna. Hvað þá heldur annað. Og það voru allir eins og sendiherrar og allir sem vettlingi gátu valdið sem höfðu öryggisverði frá einkafyrirtækjum, þetta er mesta gósenland öryggisgæslu í heiminum.“ 

Nelson Mandela - Friðarhöfðingi og stríðsmaður

Sigríður Dúna segir að rætur þessa ofbeldis sé arfur frá aðskilnaðarstefnunni. Mikil breyting varð eftir mótmælin í Sharpville 1960. Þá söfnuðust þúsundir íbúa saman fyrir framan lögreglustöðina í bænum. Lögregla brást hart við, rúmlega 300 vopnaðir lögreglumenn töldu sér ógnað af mótmælendum og áður en yfir lauk lágu 69 í valnum, skotnir til bana af lögreglu. Þar á meðal voru 19 börn. „Þá hugsaði Afríska þjóðarráðið með sér, sem hafði þangað til notað friðsamlegar aðferðir til að berjast gegn þessu ofbeldi og kúgun aðskilnaðarstjórnarinnar, það dugar ekki. Við verðum að fara út í hernað. Og það er skipuð hernaðardeild innan Afríska þjóðarráðsins og Nelson Mandela er formaður hennar og foringi. Hann er bæði friðarhöfðingi og stríðsmaður, hann er alveg tvíklofinn að þessu leytinu. Og þetta eru náttúrulega hryðjuverkasamtök. Þau sprengja upp orkuver, þau sprengja upp verksmiðjur. Þau hvetja borgarana til borgaralegrar óhlýðni, að leggja meira og minna allt systemið í rúst, vegna þess að þeir fara ekki eftir reglunum. Og meðal annars hvöttu þau sveitarfélögin til að borga ekki rafmagnsreikningana til ESCOM, rafmagnsfyrirtæksins og Ramaphosa er enn að eiga við það, þau borga það ekki ennþá. Það er svo erfitt að vinda ofan af svona sem er orðið menningarbundið. 

Police clash with protesters outside the U.N. refugee agency's offices in Cape Town, South Africa Wednesday, Oct. 30, 2019. Police used water cannons while dispersing and arresting scores of foreigners who have camped outside the offices for weeks seeking relocation outside South Africa after a wave of attacks on foreigners in cities earlier this year. (AP Photo)
 Mynd: AP
Lögregla í Höfðaborg beitti bæði táragasi og öflugum vatnsbyssum gegn mótmælendum fyrir utan skrifstofur flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna 30. október.

Það veltur allt á Afríska þjóðarráðinu

Suður-Afríka er lýðræðisþjóðfélag, nokkru yngra en Ísland en landið varð lýðveldi 1961. Afríska þjóðarráðið hefur haft meirihluta á þinginu frá fyrstu frjálsu kosningunum 1994. Í síðustu kosningum fékk það tæplega 58 prósent atkvæða en næst stærsti flokkurinn, Lýðræðisbandalagið um 20 prósent. Hvers vegna kýs fólk þennan flokk áfram, þrátt fyrir efnahagsástandið og spillinguna? „Það er vegna þess að þetta er gamla andspyrnuhreyfingin, þetta er táknið fyrir frjálsa Suður-Afríku og meirihluti kjósenda hefur kannski ekki tækin og tólin til að sjá að það eru aðrir möguleikar heldur en að kjósa Afríska þjóðarráðið. Þannig að í raun og veru er þetta eins flokks ræði frekar en þingræði. Og þess vegna eru forsetarnir, sem allir koma úr röðum Afríska þjóðarráðsins, þess vegna eru þeir og þeirra flokkur svo mikilvæg í stjórnmálaþróun í Suður-Afríku, það veltur allt á Afríska þjóðarráðinu,“ segir Sigríður Dúna. 

Atvinnuleysi með því mesta í heiminum

Cyril Ramaphosa verið nú verið við völd í rúmt ár en á þessu ári hefur ástandið í landinu versnað. Þar mælist atvinnuleysi nú tæplega þrjátíu prósent, og hefur ekki verið meira í rúman áratug og það er enn meira meðal ungs fólks sem sér líklega ekki bjarta framtíð í Suður-Afríku. En Ramaphosa gengur illa að styrkja innviðina, rafmagnsleysi er enn viðvarandi og vatnsskortur mikill. Í þessari viku fóru fréttamenn breska ríkisútvarpsins milli þorpa norður af borginni Port Elisabeth syðst í Suður-Afríku. Þar er nú mesti þurrkur í manna minnum. 

Ramaphosa kemur eins og frelsandi engill

Stórar stíflur eru á sléttunum norðan við Port Elisabeth en þar er ekkert vatn og jörðin skrælnuð. Á þessum slóðum hefur ekki rignt að ráði í fimm ár og íbúar kalla eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. „Suður-Afríkumenn eru mjög óþolinmóðir í stjórnmálum. Góður vinur minn í Pretoríu var staddur á útifundi skömmu eftir að Mandela tók við forsetaembættinu 1994 og við hlið hans stóð gömul kona sem bryddaði upp á samræðum við hann og hún sagði, sko nú er Mandela búinn að vera forseti í þrjár vikur og ég er ekki komin með rafmagn og rennandi vatn í kofann minn. Þarna eru væntingar alveg gífurlegar og að mörgu leyti óábyrg stjórnmál. Það er miklu meiru lofað heldur en nokkur möguleiki er á að framkvæma. Og sama er að gerast núna. Ramaphosa kemur eins og frelsandi engill, Zuma er sparkað. Rhamaphosa tekur við, hann er með svipaðar hugmyndir og Mandela, þannig að ferlið frá Mandela, sem hætti 1999 er eiginlega byrjað aftur nú þegar Rhamaphosa tekur við, það er nærri 20 ára hlé á milli. Hann hefur sömu hugmyndir og Mandela. Hann lagði alltaf áherslu á mannréttindavinkilinn í sínum stjórnmálum, það gerir Rhamaphosa líka enda voru þeir mjög nánir samherjar en núna finnst Suður-afríkumönnum, eins og gömlu konunni, að þetta gangi ekki nógu hratt.

epa07978855 Captain of the South African national rugby team Siya Kolisi (L) South African head coach Rassie Erasmus (R) and South African President Cyril Ramaphosa (C) with the Webb Ellis Cup at the Union Buildings in Pretoria, South Africa 07 November 2019. The Springboks embark on a nation wide trophy tour today after winning the Rugby World Cup. South Africa won the Webb Ellis trophy after defeating England 32-12 in the Rugby World Cup final played in Japan on 02 November 2019.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Cyril Ramaphosa fagnar með liðsmanni og þjálfara landsliðs Suður-Afríku í rugby sem vann heimsmeistaramótið á dögunum.

Léleg menntun akkilesarhæll Suður-Afríku

Sigríður Dúna segir stjórnarskrá Suður-Afríku eina þá bestu í heimi og Rhamaphosa geti vel nýtt sér hana til að snúa við blaðinu. „Það að laga þetta vandamál er ekki gert með einni aðgerð eða fjórum eða tíu. Það þarf að gjörbylta þjóðfélaginu. Hann þarf að endurreisa stofnanir lýðveldisins og laga þær að nýjum sjónarmiðum, hann þarf að endurreisa ríkisfyrirtækin, hann þarf að snúa við efnahagsþróuninni í þessu risastóra landi, hann þarf að koma opinberri þjónustu í lag, rafmagninu og skólakerfinu, við skulum nú ekki vanmeta það, heldur betur ekki því það er eiginlega akkilesarhæll Suður-Afríku, það er mjög léleg menntun. Mjög léleg. Það var ein aðferð aðskilnaðarstjórnarinnar að gæta þess að svartir fengju eins litla menntun og hægt væri svo þeir hefðu ekki tækin og tólin til að rísa upp gegn aðskilnaðarstjórninni.“

Rhamaphosa á erfitt verk fyrir höndum

Cyril Rhamaphosa var verkalýðsforingi á níunda áratugnum og formaður sambands námuverkamanna í Jóhannesarborg. Hann átti stóran þátt í því, ásamt Mandela, að semja um blóðlausu yfirtöku, þannig að það hljóp ekki allt í bál og brand við yfirtöku svartra 1994. Eftir að Afríska þjóðarráðið valdi Zuma 2008 snéri hann sér að viðskiptum og varð svo varaforseti á landsfundi flokksins 2017. Hann hefur því setið tæp tvö ár á valdastóli og óþolinmæði íbúa að mörgu leyti skiljanleg. Þeir vilja sjá gagngerar breytingar á efnahag landsins og að menn eins og Zuma séu sendir fyrir rétt, en máli hans hefur ítrekað verið frestað. En Ramaphosa bíður líka það verk að taka á félögum Zuma í flokknum sem hafa stutt hann í öll þessi ár og gætu líka haft óhreint mjöl í pokahorninu og hafa jafnvel hagsmuna að gæta í að honum takist ekki að taka á spillingunni. „Þetta er ekki verkefni fyrir einn mann, það veit heilög hamingjan en eins og fyrri daginn setja Suður-Afríkumenn traust sitt á einn mann eins og Mandela forðum og að árangurinn eigi að sýna sig strax.“

En fyrst þarf Rhamaphosa líklega að rétta við efnahag landsins og stöðva óeirðir og árásir, bæði Suður-afríkumanna gegn öðrum afríkumönnum, en einnig árásir á Suður-Afríkumenn í nágrannalöndunum. Því það virðist vera svo að það sé af sem áður var að litið sé á Suður-Afríkumenn sem fánabera í mannréttindamálum. Nú eru allir fullir af tortryggni og Rhamaphosa hefur sent sendinefndir á vegum ríkisstjórnarinnar til Nígeríu til að ræða við Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu, til að biðjast afsökunar á því ofbeldi sem Nígeríumenn og þegnar fleiri ríkja verða fyrir í Suður-Afríku. „Þetta var gert til þess að reyna að lægja öldurnar og Rhamaphosa var þar að reyna að lægja öldurnar og Rhamaphosa að lýsa vilja sinnar ríkisstjórnar til að eiga við þetta ofbeldi en sjálfsagt líka að útskýra fyrir Buhari hvers vegna þessi ofbeldismenning. Og auðvitað veit maður eins og hann nákvæmlega hvað er þarna á ferðinni. Svo er hann búinn að setja á fót rannsóknarnefnd til að skoða þessa glæpi sem eru framdir og óeirðir í nafni útlendingaandúðar og fyrir henni fara fyrrverandi forsetar Mósambík og Tansaníu, þannig að hann er að gera fullt. En þetta tekur tíma og þrjár vikur eru bara ekki nógu langur tími, eins og hjá gömlu konunni,“ segir Sigríður Dúna.  
 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV