Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spennt að takast á við nýju verkefnin

Mynd með færslu
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, verður næsti dómsmálaráðherra og með því næstyngsti ráðherra sögunnar. Hún segir að tilfinningin sé góð. Hún sé þakklát fyrir að henni sé treyst fyrir þessu stóra verkefni. „Ég er spennt að takast á við öll þau stóru verkefni sem eru undir í þessu ráðuneyti.“

Áslaug Arna er á öryggisráðstefnu í Helsinki sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Hún var tók þátt í þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins, sem fór fram á fimmta tímanum í dag, í gegnum síma. Á fundinum tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, valið á nýjum ráðherra. Áslaug Arna segist hafa fengið að vita um valið einni mínútu fyrir þingflokksfundinn. 

Það verði að koma í ljós hvaða áherslur hún hafi þegar hún taki við nýju starfi sem dómsmálaráðherra. Hún sé að stíga inn í ákveðna ríkisstjórn sem starfi eftir ákveðnum sáttmála en fari full tilhlökkunar inn í ráðuneytið og taki verkefnin sem þar eru alvarlega. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er fædd árið 1990 og er því á 29. aldursári. Hún lauk meistaraprófi í lögfræði 2017. Áslaug settist fyrst á Alþingi árið 2016 og hefur gegnt formennsku í alþjóðadeildum þingsins. Hún verður næstyngsti ráðherra sögunnar og segir þá tilfinningu góða.