Spariútgáfa Hjaltalín í Hörpu

Mynd: RÚV / RÚV

Spariútgáfa Hjaltalín í Hörpu

05.09.2019 - 13:00

Höfundar

Eftir stuttan dvala snýr hljómsveitin Hjaltalín aftur með látum eða öllu heldur hljómfögrum tónum á stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu á föstudag og laugardag. 

Hjaltalín heldur stórtónleika í Hörpu um helgina eftir að hafa legið í hálfgerðum dvala frá því hún gaf út plötuna Enter IV árið 2012. Þó hafa komið út nokkur lög frá sveitinni í millitíðinni, lögin Baronesse og Love from 99 hafa notið mikilla vinsælda og hillir nú loks undir nýja breiðskífu sem kemur út eftir fáeinar vikur. Hjaltalín teflir öllu fram á tónleikunum í Hörpu og verður í spariútgáfu.

„Hjaltalín í svona sparifötum, ég held svona mestu sparifötum sem við höfum farið í, alla vega í langan tíma. Við erum bara að pússa skóna og leggja lokahönd á og hlökkum gríðarlega mikið til,“ segir Sigríður Thorlacius söngkona sveitarinnar. 

Hljómsveitin mun leika megnið af efni nýju plötunnar í bland við eldra efni en nýja breiðskífan verður sú fjórða í röðinni fyrir utan tónleikaplötur og kvikmyndatónlist. „Við ætlum að leika lög af fyrstu plötunni, við ætlum að leika „Goodbye July, goodbye“. Ég var að syngja þetta hérna áðan og mér fannst svo fyndið að heyra sjálfan mig syngja það með annarri röddu en ég söng það fyrst,“ segir Högni Egilsson söngvari sveitarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá æfingu Hjaltalín.

„Við höfum gengið í gegnum alls kyns dali og klifið alls kyns fjöll og svona. Ég held að það geri svona, dýpki einhvern veginn sambandið. Það hefur verið erfitt og rosalega gaman og það hefur verið skrítið og alls konar. Og við erum bara á dálítið góðum stað held ég, þetta er einhvers konar svona yfirlit yfir einhvern feril,“ segir Sigríður um tónleikana í Eldborg. „Bara eins og í öllum samböndum, þá eru þetta hæðir og lægðir, en eitthvað sem maður fer í gegnum saman. Það er nógu flókið að vera í tveggja manna sambandi en að vera í 6-7 manna sambandi, það er bara 7 sinnum flóknara,“ bætir bassaleikarinn Guðmundur Óskar Guðmundsson við. 

„Ætli það sé ekki bara aldurinn eða eitthvað. Við erum búin að vera að spila síðan 2006 , eignast börn og gera alls konar annað en að spila með Hjaltalín. En það lifir alltaf þessi neisti,“ segir Guðmundur Óskar þegar spurt er um þann dvala sem Hjaltalín hefur legið í síðustu ár. „Þetta er eins og að hjóla, bara ótrúlega gaman. Við verðum með stórt band með okkur, strengjaleikara, brassleikara og svona aukagítarleikara og aukatrommuleikara. Þetta verður eins veglegt og við getum,“ segir Guðmundur Óskar og telur að það verði ekki erfitt að stila saman strengi eftir langa pásu. 

Síðasta árið hefur hljómsveitin unnið að plötu sem kemur út bráðlega. „Þetta ár hefur verið svolítið, maður hefur verið svolítið mikið fastur inni í helli að smíða og semja og liggja yfir útsetningum og upptökum. En við erum búin með plötuna og hlökkum mikið til að leyfa fólki að heyra,“ segir Högni og svarar því til að tónleikagestir megi syngja með. „Endilega, ef fólk kann lögin þá er um að gera að syngja með. Mér þykir mjög vænt um það, ég finn oft fyrir því úti á götu og á bar eða hvar sem er að fullt af fólki kemur upp að manni og segir „ég elska þetta lag“ eða „ég elska hitt“. Mér datt það ekkert í hug og ekkert af okkur þegar við byrjuðum hljómsveitina að þetta yrði svona líf þar sem músíkin okkar fengi að heyrast og fengi að finna sér stað í hjörtum fólks sem ég vona innilega að hún geri og mig grunar það. Þessir tónleikar eru svolítill vitnisburður um það og þess vegna gerir það okkur hamingjusöm að fara að leika hérna á laugardaginn og föstudaginn,“ segir Högni Egilsson.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hjaltalín á Tónaflóði Rásar 2

Tónlist

„Ég er sjálfur þjóðernispungur“

Tónlist

Hjaltalín með glaðlega fortíðarþrá

Tónlist

Barónessa með Hjaltalín í Vikunni