Margir hugsa með hlýhug til barsins sem stóð við Klapparstíg í túrkisbláum lit með máluðum pálmatrjám á framhliðinni. Barinn var rekinn í tæpan áratug og lokaði 2008 þegar rífa átti húsið sem hann var í. Sirkús var mikið sóttur af listamönnum og helgina áður en hann lokaði var haldið þriggja daga tónlistarmaraþon þar sem meðal annars Páll Óskar, Sigur Rós og Trabant komu fram. Sigga geymdi mikið af innanstokksmunum af barnum þegar hann lokaði en hann var endurbyggður í London fyrir áratug sem listgjörningur á vegum Kling og Bang á Frieze Art-listahátíðinni í London.
„Við erum að horfa á járnið sem var utan á húsinu, við erum búin að búa til pall úr því og öllum afgöngunum, veggjunum innan og utan. Við fengum sálina með okkur,“ segir Sigga. „Við erum búin að smíða þetta með vinum og vandamönnum í vetur, sonur minn og fleiri vorum hér á fullu. Máluðum alla gömlu stólana, og notuðum eiginlega allt sem við gátum af gamla staðnum,“ segir Sigga.