Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sparibaukurinn fullur eftir tíu ár í geymslu

Mynd: Ísgerður Gunnarsdóttir / Ísgerður Gunnarsdóttir

Sparibaukurinn fullur eftir tíu ár í geymslu

22.07.2019 - 17:21

Höfundar

„Ég er ekki jafn gömul og fólk heldur að ég sé,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir hlæjandi en hún er betur þekkt sem Sigga Boston. Hún hefur nú opnað hinn sögufræga bar Sirkús á nýjan leik, á Seyðisfirði.

Margir hugsa með hlýhug til barsins sem stóð við Klapparstíg í túrkisbláum lit með máluðum pálmatrjám á framhliðinni. Barinn var rekinn í tæpan áratug og lokaði 2008 þegar rífa átti húsið sem hann var í. Sirkús var mikið sóttur af listamönnum og helgina áður en hann lokaði var haldið þriggja daga tónlistarmaraþon þar sem meðal annars Páll Óskar, Sigur Rós og Trabant komu fram. Sigga geymdi mikið af innanstokksmunum af barnum þegar hann lokaði en hann var endurbyggður í London fyrir áratug sem listgjörningur á vegum Kling og Bang á Frieze Art-listahátíðinni í London.

„Við erum að horfa á járnið sem var utan á húsinu, við erum búin að búa til pall úr því og öllum afgöngunum, veggjunum innan og utan. Við fengum sálina með okkur,“ segir Sigga. „Við erum búin að smíða þetta með vinum og vandamönnum í vetur, sonur minn og fleiri vorum hér á fullu. Máluðum alla gömlu stólana, og notuðum eiginlega allt sem við gátum af gamla staðnum,“ segir Sigga.

Mynd: Ísgerður Gunnarsdóttir / Ísgerður Gunnarsdóttir
Ísgerður rölti með Siggu Boston um barsvæðið.

Hvers vegna opnaði hún Sirkús hér? „Ég flutti hingað. Það voru allir alltaf að spyrja mig hvort ég ætli ekki að opna barinn, en ég var bara að vinna á spítalanum.“ Það hafi verið talsverð fyrirhöfn að koma dótinu austur en hún hafi fengið styrk frá Menningarsjóði Austurlands fyrir flutningnum. „Þetta er æðislegur bær, allir svo opnir og dásamlegt fólk sem býr hérna. Þannig ég er ekkert að fara. Ég hafði komið nokkrum sinnum í heimsókn, svo ákvað ég bara að vera hérna, keypti mér lítið hús og líður ógeðslega vel með hundana mína undir fossinum og er ekkert að flýta mér í bæinn.“

Hún segir að fortíðarþráin hafi ekki helst yfir hana við uppsetningu barsins, en ýmislegt skemmtilegt hafi þó komið upp úr kössunum, til dæmis fullur sparibaukur sem hafi tekið á móti þjórfé. „Okkur fannst það dálítið táknrænt, að baukurinn væri ennþá fullur eftir tíu ár í geymslu. Þannig hann fór bara á barinn aftur.“ Sigga segir að íbúar Seyðisfjarðar séu þegar farnir að venja komur sínar á Sirkús. „Mér finnst það dásamlegt. Kaffihús og pöbbar eiga að vera fyrir heimafólk að búa til meiri menningu. Nóg er menningin hérna en mér finnst gaman að skreyta með þessu.“ Mjög margir sáu eftir Sirkús þegar hann lokaði árið 2008. „Þess vegna hvíldi þetta alltaf á manni. Átti ég að henda þessu, kveikja í þessu eða hvað? Mér finnst þetta ágætisákvörðun. Svo bara sjáum við hvernig þetta fer. Rokk og ról.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Útsýnið af útisvæðinu bak við barinn er ekkert slor.

Þegar Sirkús var í Reykjavík var bannað að taka myndir þar inni. Er þeirri stefnu framfylgt ennþá? „Það er eiginlega ekki hægt lengur. Þessi persónuvernd er orðin svo flókin þegar allir eru með myndavélasíma,“ segir Sigga sem hlakkar til að vera Sirkússtjóri á Seyðisfirði. „Við sjáum hvernig þetta fer. Ég nenni þessu ekki alla ævi, en ég er ennþá fersk,“ segir hún að lokum.

Ísgerður Gunnarsdóttir ræddi við Siggu Boston á Seyðisfirði fyrir Síðdegisútvarpið.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„LungA varð til vegna frekju í mér“

Myndlist

Andsvar við áhugaleysi um hinsegin myndlist

Myndlist

Seyðisfjörður baðaður ljósi

Austurland

Særðist í loftárás á Seyðisfjörð fyrir 75 árum