Spánn, Þýskaland og Frakkland orðin hááhættusvæði

14.03.2020 - 17:39
epa08292905 General view of a semi empty street in central Madrid, Spain, 13 March 2020, where many restaurants, business, residents and visitors have decided to stay home in an effort to stop the spread of the COVID-19 virus. Spanish Prime Minister Pedro Sanchez announced the state of emergency in the country starting 14 March to contain the spreading of the virus. The Spanish Health Ministry has confirmed at least 3,000 COVID-19 cases in Spain and 84 dead so far.  EPA-EFE/Mariscal
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Sóttvarnalæknir hækkaði í dag áhættumat fyrir Spán, Þýskaland og Frakkland vegna útbreiðslu COVID-19. Þau teljast nú hááhættusvæði. Ríkin þrjú bætast þar með á lista með Kína, Íran, Suður-Kóreu, Ítalíu og skíðavæðum í Ölpunum. Ákvörðun sóttvarnalæknis þýðir að fólk sem kemur frá þessum löndum verður að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til Íslands.

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að ástæðan fyrir hækkun á áhættumati sé fjölgun þeirra sem eru sýktir og alvarlega veikir í þessum löndum. 

Íslendingar sem koma frá Spáni og Frakklandi skulu fara í fjórtán daga sóttkví frá og með deginum í dag. Fólk sem kom frá Þýskalandi síðustu tvo daga eða hér eftir á að fara í fjórtán daga sóttkví.

Fyrr í dag ráðlögðu stjórnvöld Íslendingum frá því að ferðast til útlanda. Að auki hafa stjórnvöld ráðlagt fólki á ferðalagi erlendis að íhuga hvort ástæða sé til að flýta heimför til Íslands.

Fólki sem er statt erlendis er ráðlagt að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í gegnum netfangið [email protected], í síma 545-0-112 eða á Facebook-síðu ráðuneytisins.