Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spáin fyrir verslunarmannahelgina lítur vel út

29.07.2019 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Fyrstu veðurspár fyrir eina mestu ferðahelgi ársins líta vel út að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Á föstudag og laugardag má gera ráð fyrir hægum vindi eða hafgolu og björtu veðri víða um land. Ekki verði miklar breytingar á sunnudeginum.

Haraldur segir að erfitt sé að segja nákvæmlega fyrir um helgarveðrið nú, þær spár muni liggja betur fyrir á miðvikudag. Eins og staðan er í dag líti helgin vel út um allt land. „Fyrstu horfur eru góðar,“  segir Haraldur. 

Þessa vikuna er hitabylgja að ganga yfir landið. Búast má við að hitinn geti farið í 25 gráður víða um land í dag. Haraldur segir að morgundagurinn og miðvikudagurinn líti svipað út. Í gær var hitamet sumarsins slegið þegar hitinn fór í 26 stig í Ásbyrgi. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV