Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spáð brunagaddi við Núpá—„Erum stórhuga fyrir daginn“

13.12.2019 - 07:10
Björgunarsveitir leita pilts sem féll í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði.
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Leit að að piltinum sem féll í Núpá á miðvikudagskvöld verður haldið áfram í dag. Leitarhópar koma saman klukkan átta og verður meiri þungi settur í hana eftir því sem birtir. „Við erum stórhuga fyrir daginn og ætlum að nota birtuna vel,“ segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Frétt uppfærð klukkan 7:27

Lágmarksaðgerðir voru varðandi leitina í nótt þar sem fylgst var með ánni við brúna en engin leit var í gangi að öðru leyti. Nóttin var nýtt til að búa til leitarskipulag, þyrla Landhelgisgæslunnar muni aðstoða við leitina á morgun, í það minnsta í einhvern tíma og notaðir verða tveir drónar. Margt leitarfólk fékk hvíld í nótt og verður sent til leitar í dag, tvíeflt.

Reiknað er með að veður verði stilltara í dag en undanfarna daga. Éljabakki hangi fyrir norðan Sölvadal en Jóhannes vonar að hann haldi sig þar. „Það verður kalt, 9 til 13 stiga frost, samkvæmt síðustu spám. Ef það léttir til verður enn þá kaldara og ef það verður alveg logn þá mun enn kaldara loft leka niður úr fjöllunum.“

Ekki liggur alveg fyrir hve margir verða við leitarstörf í dag, Jóhannes segir að það muni skýrast þegar leitarhóparnir koma saman klukkan átta.

En þrátt fyrir að óveðrinu sé að slota er enn í næg horn að líta.  Fjarskiptalaust og rafmagnslaust sé enn á nokkrum stöðum og mjög víða séu bændur að bjarga sér með rafölum við mjaltir. „Það verður risaverkefni að koma veitukerfinu í gang aftur, þetta verður margra daga og vikna verkefni.“