Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

South River Band - Sirkus

Mynd: Guðný Ág / Artist Facebook

South River Band - Sirkus

15.07.2019 - 15:00

Höfundar

South River Band hefur starfað með hléum síðan haustið 2000. Á tímabilinu hefur sveitin gefið út nokkrar hljómplötur og haldið fjölda tónleika hér heima og erlendis. Sirkus er sjötta plata South River Band og er plata vikunnar á Rás 2.

South River Band var í upphafi tónlistarklúbbur frænda og sveitunga frá lítilli byggð við norðanverðan Ólafsfjörð er nefnist Kleifar.

Sveitin hefur starfað með hléum alla tíð síðan, en tveir af stofnmeðlimum hafa þó horfið yfir móðuna miklu. Á síðustu árum hefur sveitin gefið út sex hljómplötur, haldið fjöldamarga tónleika og meðal annars komið fram tvisvar á tónlistarhátíðum í Skandinavíu.

Sumarið 2017 hittust nokkir upprunalegir félagar og hlustuðu á gamlar upptökur af æfingum með South River Band. Það varð strax ljóst að á þessum upptökum leyndist fjársjóður, mörg stórfín lög og stef sem aldrei höfðu verið flutt opinberlega, þar á meðal þó nokkur eftir Ólaf heitinn Þórðarson, sem leiddi sveitina allt frá stofnun þar til hann lést árið 2011. Neistinn kviknaði á ný og ákveðið var hittast og smíða sjöttu plötuna, til heiðurs hins fallna meistara.

Þetta er ekta South River Band hljómplata og hún geymir 13 lög, öll frumsamin og hafa orðið til á löngu tímabili. Lagavalið er heimshornatónlist með afskaplega breiðri skírskotun, polkar, hambóar, sígaunalög og sveitasöngvar. Einnig sambatónlist og jafnvel einn og einn blús. Tónlistin er að stórum hluta frumsamin og allir textar eru frumsamdir og á íslensku.

Hljómsveitin er þannig skipuð í dag: Grétar Ingi Grétarsson spilar á kontrabassa, Helgi Þór Ingason á harmonikku, Kormákur Þráinn Bragason á rytmagítar, Matthías Stefánsson spilar á fiðlu og gítar, Ólafur Baldvin Sigurðsson spilar á mandolín og allir syngja og radda.

Á plötunni Sirkus koma auk þess fram Erik Quick sem leikur á trommur og slagverk, Gunnar Hilmarsson á gítar, Magnús R. Einarsson á gítar, og Gunnlaugur Helgason og Ágústa Ósk Óskarsdóttir radda.

Mynd með færslu
South River Band - Sirkus