Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóun að hafa svo margar bensínstöðvar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsvarsfólk Skeljungs er jákvætt gagnvart þeirri ákvörðun borgarráðs í gær að flýta fækkun bensínstöðva. Aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, Már Erlingsson, segir að það sé sóun að hafa eins margar bensínstöðvar og verið hafa undanfarin ár.

Samkvæmt loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar á að fækka bensínstöðvum um helming fyrir árið 2030 og tíu árum síðar verða þær að mestu horfnar. Borgarráð ákvað hins vegar í gær að flýta þessu ferli og er stefnt að því að stöðvunum hafi fækkað um helming árið 2025. Á fimmta tug bensínstöðva er í borginni. Forstjóri Olís sagði í hádegisfréttum að þetta væri brött nálgun hjá borginni. Hann telur að jarðefnaeldsneyti verið megin orkugjafinn næstu árin og lengur en næstu sex ár.

Hafa beðið eftir ákvörðun borgarinnar

Már segir að tíðindin af borgarráðsfundi í gær séu jákvæð. „Við erum búin að vera að bíða eftir útspili borgarinnar varðandi fækkun bensínstöðva.“ Hann segir tímasetningar svolítið brattar en að forsvarsfólk fyrirtækisins eigi eftir að skoða tillögur borgarinnar betur. 

Of mikil þjónusta eins og staðan er núna

Már segir að þessi þróun sé mjög eðlileg og ekki aðeins þegar kemur að orkuskiptum en mikil áhersla er lögð á þau í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar. „Það er ákveðin sóun til staðar í kerfinu með svona mörgum útsölustöðum. Við horfum á þetta sem hagræðingaraðgerð líka. Vissulega skerðist þjónustan eitthvað líka við þetta en ég held að sú þjónusta sem er í boði í dag í Reykjavík, þetta er ofurþjónusta, og kannski bara barn síns tíma.“