Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sóttvarnarlæknir segir eðlilegt að fólk sé óttaslegið

25.02.2020 - 20:14
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir eðlilegt að fólk sé óttaslegið í ljósi þess COVID-19 veiran er að greinast á stöðum þar sem Íslendingar hafa verið að ferðast. Hingað til hafi veiran verið nokkuð fjarlæg í Asíu. „En allar okkar viðbragðsáætlanir miða að því að stoppa þennan faraldur sem fyrst og hefta útbreiðslu hans.“

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.  Greint var frá því í morgun að COVID-19 veiran hefði greinst á Tenerife og eru 7 Íslendingar í hópi þeirra sem hafa verið settir í sóttkví á H10 Costa Adeje Palace hótelinu. Þá hefur veiran sömuleiðis greinst í fjórum héruðum á Norður-Ítalíu.

Þórólfur segir erfitt að spá fyrir um framhaldið því fyrir skömmu hafi hann séð það fyrir sér að Evrópuríkjunum myndi takast að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Hann bendir þó á að 80 prósent þeirra sem fái veiruna sýkist ekki alvarlega og það sé helst eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem séu í mestri áhættu á að veikjast alvarlega.  „Tölurnar sýna að 2-3 prósent þeirra sem fá veiruna deyja og 5 prósent veikist það alvarlega að hann þarf að leggjast inn á gjörgæsludeild.“

Hann segir óvarlegt að halda að veiran komi ekki hingað. Heilbrigðisyfirvöld haldi þó ró sinni þótt upp hafi komið eitt tilfelli á hóteli á Kanarí. „Við beinum okkar tilmælum einkum að fólki sem er á þessu sama hóteli að vera í heimasóttkví þegar það kemur heim. Og við biðjum þetta fólk sem er á þessu hóteli að gefa sig fram.“

Þórólfur bendir á að heilbrigðisyfirvöld verði að treysta almenningi og að hann fari eftir þeirra tilmælum.  Hann tekur þó fram að fátítt sé að fólk smitist í flugi, loftþrýstingur og lofthreinsibúnaður hindri það og efast reyndar um að yfirvöld í öðrum löndum hleypi veiku fólki í flug. 

Fólki hefur ekki verið ráðlagt að halda sig frá Kanarí en ef fleiri tilfelli fara að greinast gæti það breyst. „Okkar viðbragðsáætlanir miða að því að stoppa þennan faraldur sem fyrst og hefta útbreiðslu hans.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV