Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóttkví: Hvenær telst fólk útsett fyrir smiti?

25.03.2020 - 20:43
Mynd: RÚV / RÚV
Leiki vafi á því hvort fólk hefur verið útsett fyrir smiti fer það í sóttkví, segir yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna. Yfir níu þúsund manns eru nú í í sóttkví. Þeir sem þurfa að fara í sóttkví eiga að tilkynna það gegnum Heilsuveru eða símleiðis á heilsugæslustöð.

Tveggja metra nálægð í fimmtán mínútur

Þau sem eru smituð af kórónuveirunni þurfa að fara í einangrun. Þau sem hafa umgengist smitað fólk, innan við sólarhring frá því það sýndi einkenni, þurfa að fara í sóttkví. Miðað er við það að hafa verið í tveggja metra nálægð í fimmtán mínútur eða lengur.

„Mikil útsetning er snerting með handabandi eða faðmlag. Ef einhver sem er smitaður hóstar eða hnerrar yfir þig eða nálægt eða yfir sléttan flöt sem þið bæði snertið,“ segir Ævar Pálmi Pálmason yfirmaður smitrakningateymisins.

Hvað ef það er vafi á því hvort fólk uppfyllir skilyrðin um að vera útsett fyrir smiti? „Vafinn er frekar túlkaður þannig að fólk fer í sóttkví þangað til það er búið að skoða málið betur,“ segir Ævar Pálmi jafnframt.

Tökum dæmi um sóttkví 

Gunna er smituð af veirunni. Daginn áður en hún fór að finna fyrir einkennum hafði hún hitt bróður sinn Jón í kaffi lengur en korter. Jón þarf að fara í sóttkví en ef hann er ekki með einkenni er öðru heimilisfólki óhætt að sækja í vinnu og skóla, vegna þess að þau hafa ekki sjálf umgengist neinn með sjúkdóminn. Það er þó ekki æskilegt að Jón sé í sóttkví á sama stað og fjölskylda sín. Ef það er ekki hægt annað er nauðsynlegt að takmarka snertingu eins og hægt er við þann sem er í sóttkví. Fari Jón að finna fyrir einkennum þarf að hann að fara í einangrun og aðrir sem hafa verið á heimlinu í sóttkví.

Þúsund Íslendingar á leið heim

Sóttkví stendur í fjórtán daga. Fólk á að tilkynna símleiðis til heilsugæslu þegar sóttkví hefst. Svo eru fjölmargir í sjálfskipaðri sóttkví, vegna viðkvæmrar stöðu sinnar eða aðstandenda.

Frá og með 19. mars hafa allir Íslendingar, og útlendingar búsettir hér, sem koma frá útlöndum þurft að fara í sóttkví. Sama hvaðan þeir koma. Þetta á þó ekki við áhafnir flugvéla og flutningaskipa. 10.500 sögðust vera erlendis fyrir mánuði. Af þeim er meira en helmingur kominn heim eða 6000. Þúsund til viðbótar stefna á heimkomu fyrir mánaðamót.