Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sósíalistaflokkur Íslands stofnaður

01.05.2017 - 18:51
Mynd með færslu
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Mynd: RÚV
Sósíalistaflokkur Íslands var formlega stofnaður í dag. Hvatamaður að stofnun flokksins segir að almenningur þurfi að ná völdum af auðvaldinu en vill ekki leggja mat á hvort hann eigi að leiða flokkinn.

Síðustu vikur hefur Gunnar Smári Egilsson blaðamaður unnið að stofnun Sósíalistaflokks Íslands. Í dag var flokkurinn formlega stofnaður og bráðabirgðastjórn skipuð fram að flokksþingi í haust. Hann kveðst ekki vita hvort hann verði formaður flokksins. Gunnar Smári segir að um 1.400 manns hafi þegar skráð sig í flokkinn.

Í síðustu alþingiskosningum voru nokkrir flokkar á vinstri vængnum í framboði.  Hvað aðgreinir Sósíalistaflokkinn frá þeim? „Við leggjum höfuðáherslu á að hér sé í gangi stéttastríð og það sé mikilvægt að lægri stéttir, verkalýður, almenningur nái vopnum sínum í barátunni og nái völdum af auðvaldinu sem hefur náð hér öllum völdum í ríkinu, í sveitarfélögum og í fyrirtækjum. Æ fleiri ákvarðanir hafa verið dregnar frá hinum sameiginlega vettvangi og dregnar út á markaðinn þar sem auðmagnið getur hreinlega ráðið hvernig hlutirnir eru.“ segir Gunnar Smári. 

Hann segir að vinstri stjórnin eftir hrun hafi endurbyggt þetta kerfi. Því sé alls ekki víst að fólk fái stéttarbaráttu þótt það kjósi vinstri flokka. 

Þú hefur nú sjálfur sætt gagnrýni að undanförnu eftir viðskilnað þinn við Fréttatímann þar sem starfsfólk fékk ekki greidd laun. Ert þú trúverðugur sem baráttumaður alþýðunnar? „Það get ég ekkert lagt mat á. Við stofnuðum Fréttatímann, rákum þar mjög róttækt fríblað. Því miður gekk það ekki á markaði og fór á hausinn. Starfsfólkið er varið þannig að það á allar eignir búsins og mun fá öll laun sín greidd.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV