Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Sorrí“ er ekki það sama og vera angurvær

Mynd: RÚV / RÚV

„Sorrí“ er ekki það sama og vera angurvær

07.03.2017 - 14:00

Höfundar

„Það hafa orðið gífurlegar breytingar á örfáum árum, síðustu fimm árum, á umhverfi tungunnar – með snjalltækjum, áhorfi á sjónvarp og tölvuleikjum. Það má búast við að þetta breyti stöðu tungumálsins,“ sagði Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann og Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, ræddu þá ógn sem steðjar að íslenskri tungu og hvað stjórnvöld þurfa að gera til að styrkja stöðu hennar. Þau telja að stjórnvöld hafi sofið á verðinum.

Eiríkur sagði frá því að það vantaði rannsóknir til að staðfesta það sem fólk hefði á tilfinningunni – að miklar breytingar væru að verða, t.d. með áhrifum snjalltækja á málþroska barna. Þau Eiríkur og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor, eru einmitt að hefja stóra rannsókn á þessu sviði. Eiríkur segir að hvorki enskan né snjalltækin séu óvinir íslenskunnar. Hvort tveggja megi nota til góðs. Kristín Helga Gunnarsdóttir gagnrýndi bókaskattinn og lítinn stuðning stjórnvalda við þau sem skrifa á þessu máli – íslensku. Hún segir að gaman sé að heyra hvernig ungt fólk kemur með ný orð inn í málið en það megi ekki tapa því sem er mikilvægt, íslenskri hugsun á íslensku.

„Ég heyri fullorðið fólk segja aksjúallí. Það er algjör óþarfi. Mun auðveldara er að segja í raun.“

Kristín Helga segir að hennar kynslóð syrgi orð sem fólk virðist hætt að nota jafn mikið og áður. „Það er stóra hættan. Tungumálið verði einhæft og orðum fækki. Takmarkast þá ekki hugsunin? Ef þú hættir að skilja orðið angurvær hverfur þá ekki tilfinningin líka – að vera angurvær?“ Menn segjast þá bara vera sorrí. Kristín Helga segir að það nái sannarlega ekki merkingu þess að vera angurvær.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Kristín H Gunnarsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson

„Það hefur verið styrkur íslenskunnar að menn hafa getað notað hana á öllum sviðum þjóðlífsins. Það gæti farið þannig að íslenskan missi ákveðin svið, missi tæknisviðið, og áður hefur verið talað um að gera ensku að viðskiptamáli. Það myndi hafa gífurleg áhrif ef ungt fólk vex upp við það að móðurmál þess sé ekki nothæft á öllum sviðum,“ sagði Eiríkur Rögnvaldsson.

Viðmælendur Morgunvaktarinnar voru sammála um að stjórnvöld þyrftu að grípa þegar í taumana og styrkja verulega möguleika íslenskunnar til að mæta nýrri tækni og breytingum í samfélaginu.

Á morgun verður Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, gestur Morgunvaktarinnar.

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Ekki óyfirstíganlegt að íslenska snjalltæki

Tækni og vísindi

Mikilvægt að nota íslensku í stafrænum heimi

Tækni og vísindi

Erum sítengd við menningarheim á ensku