Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sorpa situr uppi með afurðirnar

22.03.2020 - 19:20
Mynd: Vilhjálmur Þór / RÚV
Sorpa hefur enn ekki fundið kaupendur fyrir 3 milljónir rúmmetra af metangasi og 12 þúsund tonn af moltu sem ný gas - og jarðgerðarstöð á Álfsnesi mun framleiða á ári. Það kostaði rúma fimm milljarða að byggja stöðina sem verður tilbúin í lok mánaðar.

Á pari við virkjun

Gas- og jarðagerðarstöðin er stærsta framkvæmd Sorpu fyrr og síðar. Árið 2010 ákváðu sveitarfélögin að urðun sorps yrði hætt árið 2020 og er bygging stöðvarinnar stærsti liðurinn í því. Allri urðun heimilissorps á höfuðborgarsvæðinu verður hætt þegar stöðin verður tekin í gagnið.

Framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöðina hófust í október 2018 og áætlað er að verklok verði í lok mars. Gas- og jarðgerðarstöðin, eða GAJA eins og hún er kölluð, er engin smásmíði eða tæpir þrettán þúsund fermetrar.

„Þetta eru 83 þúsund rúmmetrar. Og þetta hús og þessi verksmiðja er bara á pari við virkjun. Þetta er bara orkustöð. Við erum að gera okkur vonir um að kynda upp hérna í maí og vera komnir á fullt í ágúst,“ segir Sveinn Fjelsted, verkefnisstjóri GAJU.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Sveinn Fjelsted, verkefnisstjóri GAJU.

Bleyjur verða að verðmætum

Þessi nýja endurvinnsla breytir þó ekki flokkun almennings heldur er sorpið forunnið í gömlu móttökustöðinni í Gufunesi. Móttökustöðin var stækkuð umtalsvert og keypt voru ný tæki fyrir tugi milljóna til að hægt verði að flokka ruslið rétt. Ruslið verður að vera rétt flokkað svo hægt sé að nota búnaðinn í GAJU.

Lífrænum úrgangi er svo ekið frá Gufunesi í GAJU þar sem næring og orka endurheimtist, meðal annars úr bleyjum og gæludýraúrgangi. Með öðrum orðum, sorp sem áður var urðað í jörðu breytist í metan og moltu í GAJU.

95% úrgangs endurnýttur

„Þetta er auðvitað bara risastórt skref með tilliti til loftslagsmálanna. Bara það eitt og sér að fara að framleiða þetta metan úr þessum úrgangi sem fór áður til urðunar, það í rauninni jafngildir því að taka hátt í 40 þúsund bíla af borgum götunnar,“ segir Gyða Sigríður Björnsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni og samfélagsábyrgð hjá Sorpu. 

Þegar vinnslan verður að fullu komin í gagnið verður yfir 95 prósent úrgangs frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu endurnýttur.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Gyða Sigríður Björnsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni og samfélagsábyrgð hjá Sorpu.

Áttu eftir að hanna stöðina þegar verkið var boðið út

Fjárhagsvandræði Sorpu hafa verið mikið til umfjöllunar undanfarið en vandræðin eru fyrst og fremst tilkomin vegna uppbyggingar þessar nýju stöðvar.

Heildarkostnaður framkvæmda við stöðina er 5,2 milljarðar. Í byrjun árs birti Innri endurskoðun Reykjavíkur svarta skýrslu um starfsemi Sorpu, eftir að í ljós kom að tæplega einn og hálfan milljarð vantaði inn í áætlanir. Í kjölfarið sagði stjórn fyrirtækisins Birni Halldórssyni framkvæmdastjóra upp.

Framkvæmdakostnaður var allt of lágur og vanáætlaður, meðal annars vegna þess að verkið var boðið út áður en búið var að hanna stöðina.

Ekki neinum einum að kenna

„Það er ekki hægt að kenna neinum einum um. Það var eftir litlu að fara,“ segir Sveinn Fjelsted verkefnisstjóri GAJU. Tímaskortur hafi verið aðalástæða þess að verkið reyndist miklu dýrara en lagt var upp með.

 „Ef við hefðum hannað húsið og boðið það síðan út, þá ættum við eftir sirka 18 mánuði eftir í að klára stöðina. Þannig það var tímaskortur sem varð til þess að þetta fór svona? Algjör tímaskortur. En hvers vegna þurfti að pressa svona á þetta? Vegna þess að eftir 2020 þá urðarðu ekki lífrænan úrgang. Hvað ætlarðu þá að gera við hann?,“ segir Sveinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Rúma fimm milljarða kostaði að byggja Gas-og jarðgerðarstöðina GAJU.

Tvö neyðarlán á þessu ári

Bara á þessu ári hefur Sorpa tekið tvö neyðarlán upp á næstum einn og hálfan milljarð króna. En það dugar ekki til heldur og ljóst að eigendur þurfa líka að setja aukið fjármagn inn í reksturinn.

En hvenær búast stjórnendur Sorpu við að reksturinn í GAJU verði arðbær?

 „Ég held að það sé dálítð afstætt. Ég get haldið því fram að hann sé arðbær frá fyrsta degi því við erum að framfylgja hér ákvörðunum sem hafa verið teknar um að hætta að urða lífrænan heimilisúrgang, þess vegna þurfum við að gera þetta. En arðbær út frá því hvort við getum selt afurðirnar, það er svona erfiðara og flóknara mál að tala um,“ segir Helgi Þór Ingason, starfandi framkvæmdastjóri Sorpu.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Helgi Þór Ingason, starfandi framkvæmdastjóri Sorpu.

Stór hluti metans nýtist ekki - tvöfalda samt framleiðsluna 

Þegar GAJA kemst í gagnið tvöfaldast framleiðslugeta landsins á metani. Það kann þó að skjóta skökku við, því í dag er stór hluti metansins sem er framleitt brennt, því það nýtist ekki. Og enn hefur ekki verið gerður samningur um nýtingu afurðanna; hvorki metanið né moltuna.

„Það er búið að tala við ýmsa og ýmislegt í gangi en það liggur ekki fyrir neinn bindandi samningur. En hefði ekki verið æskilegra að ganga frá slíkum samningum áður en það var farið í að byggja stöðina? Ég hefði trúlega hugað að því, ef ég hefði sjálfur verið hér við stjórnvöl frá upphafi,“ segir Helgi Þór. 

Leita að mörkuðum 

Helgi segir að hækkun gjaldskrár og aðrar hagræðingar hjálpi líka til við björgun Sorpu. Hann teur að þeir erfiðleikar sem fyrirtækið stendur frammi fyrir séu tímabundnir.

„Sorpa er fyrirtæki framtíðarinnar. Þegar upp er staðið snýst þetta ekki bara um eitthvað eitt, heldur er mjög margt sem kemur til, til að bjarga fyrirtækinu út úr þeim fjárhagserfiðleikum sem það sannarlega er í. Og nú bara vindum við okkur í það með ráðum og dáð að finna markaði fyrir þessar afurðir.