Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sorglegt en fallegt að vera manneskja

Mynd: Benedikt / Benedikt

Sorglegt en fallegt að vera manneskja

20.09.2019 - 13:36

Höfundar

„Sjálfsmorð þekkjum við öll hvort sem það er persónulega eða í kringum okkur. En verkið fjallar líka um björgun, upprisu og von,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir höfundur leikritsins Ör sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu í gær.

Leikritið Ör (maðurinn er eina dýrið sem grætur) skrifaði rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir upprunalega sem leikrit. Skáldsagan Ör, sem hlaut meðal annars bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, var svo skrifuð eftir leikritinu. Þetta er í fyrsta sinn sem leikritið er sett á svið og var frumsýning í Þjóðleikhúsinu í gær. „Þetta er verk um sársauka. Spurningin er hvort maðurinn sé í raun eina dýrið sem grætur eða eina dýrið sem hlær,“ sagði Auður Ava í viðtali við Andra Frey Viðarsson og Hafdísi Helgadóttur í Síðdegisútvarpinu. 

Auður Ava hefur í verkum sínum mikið fengist við hið mannlega og þá sigra og þau skakkaföll sem því fylgja að vera manneskja. „Það er bæði sorglegt og fallegt eins og stendur á jólakúlunni sem ég hengi alltaf á jólatréð eftir Ragnar Kjartansson,“ segir Auður Ava. Verkið fjallar um þennan nístandi mannleika og umfjöllunarefnið er ekkert léttmeti. „Sjálfsmorð þekkjum við til dæmis öll hvort sem það er persónulega eða í kringum okkur,“ segir Auður alvarleg. „En verkið er líka um björgun, upprisu og von.“  

Með aðalhlutverk fara Baldur Trausti Hreinsson og Pálmi Gestsson og Auður Ava er afar ánægð með hvernig þeir túlka persónurnar. „Þeirra samtöl og þeirra samleikur er eitthvað sem kemur mikið á óvart. Við erum vitni að því að þeir eru týndir á ólíkum forsendum en einlægir í því. Þeir reyna að skilja skálfan sig og skilja það að vera til,“ segir hún glettin. „Leikrit er undirtexti. Það er alltaf verið að tala um það sem ekki er verið að tala um.“

Með leikstjórn fer Ólafur Egill Egilsson og tónlistin er í höndum írska tónlistarmannsins Damiens Rice. „Maður fær algjöra gæsahúð þegar Damien tekur lokalagið,“ lofar höfundurinn. 

Rætt var við Auði Övu Ólafsdóttur í Síðdegisútvarpinu og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Auður Ava fær verðlaun bóksala

Bókmenntir

Auður Ava tilnefnd til ítalskra verðlauna

Bókmenntir

Auður Ava: Ímyndunaraflið er líka veruleiki